Enski boltinn

Englandsmeistararnir fyrstir til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jack Grealish skoraði annað mark City í kvöld.
Jack Grealish skoraði annað mark City í kvöld. Matt McNulty - Manchester City/Manchester City FC via Getty Images

Manchester City varð í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum FA-bikarsins með 2-0 sigri gegn B-deildarliði Peterborough United.

Peterborough situr í neðsta sæti B-deildarinnar og því nokkuð ljóst að um erfiðan leik væri að ræða gegn ríkjandi Englandsmeisturum sem tróna á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Þrátt fyrir þennan mikla mun á liðunum var enn markalaust þegar flautað var til hálfleiks, en Riyad Mahrez kom City yfir eftir rétt tæplega klukkutíma leik.

Það var svo dýrasti leikmaður enskrar knattspyrnu frá upphafi, Jack Grealish, sem tvöfaldaði forystu gestanna með marki á 67. mínútu, og þar við sat.

Niðurstaðan varð 2-0 sigur Manchester City og liðið er því á leið í átta liða úrslit.

Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×