Enski boltinn

„Galið“ að hugsa um fernuna á þessum tímapunkti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp hafði ekki mikinn áhuga á að ræða um möguleika Liverpool á að vinna fernuna.
Jürgen Klopp hafði ekki mikinn áhuga á að ræða um möguleika Liverpool á að vinna fernuna. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að það sé algjörlega galin hugsun að velta því fyrir sér á þessum tímapunkti tímabilsins hvort að liðið geti unnið fernuna.

Liverpool mætir Norwich í 16-liða úrslitum FA-bikarsins í kvöld, aðeins þremur dögum eftir að liðið tryggði sér enska deildarbikarmeistaratitilinn í vítaspyrnukeppni gegn Chelsea.

Liverpool á því enn góða möguleika á því að vinna FA-bikarinn, en liðið er einnig í harðri titilbaráttu í ensku úrvalsdeildinni ásamt því að vera í góðri stöðu í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Þýski þjálfarinn fór stuttlega yfir leik liðsins gegn Chelsea síðasta sunnudag áður en hann minnti fólk á það að það sé í raun galin pæling að ætla sér að fara að hugsa um alla titlana sem gætu orðið á þessu stigi tímabilsins.

„Þegar ég horfi til baka á leikinn gegn Chelsea þá sé ég að hugarfar beggja liða var algjörlega ótrúlegt. Hraðinn í leiknum var mikill og bæði lið reyndu að pressa eins og þau gátu í 120 mínútur. Það er engin spurning um að hugarfarið var frábært, ekki bara hjá Chelsea, heldur hjá okkur líka,“ sagði Klopp.

„Að vinna vítaspyrnukeppnina síðan 11-10 sýnir að einbeitingin var klikkuð allan leikinn. Þannig að hugarfarið var frábært og mjög mikilvægt. Munum við halda því út allt tímabilið? Ég veit það ekki, en við munum reyna.“

„Engu liði í sögu bresks fótbolta hefur tekist að vinna fernuna af því að það er virkilega erfitt. Við unnum deildarbikarinn, en við erum á eftir Manchester City í deildinni og við mætum Norwich á morgun [í dag] eftir 120 mínútur seinasta sunnudag. Og svo mætum við West Ham.“

„Það er ekki það að við séum einu sinni nálægt því að hugsa um svo galna hluti eins og fernuna. Við viljum bara vera vissir um að strákarnir séu í standi til að mæta Norwich.“

„Að hugsa til þess að við eigum möguleika á því gæti verið hrós, en ég þarf ekki á því að halda. Viðhorfum ekki á þetta og hugsum: „Vá, við erum nálægt því að vinna fernuna.“ Við erum ekki nálægt neinu eins og er. Við erum enn í þremur keppnum eins og mörg önnur lið og þannig er það,“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×