Enski boltinn

Sannkölluð bikarhetja Liverpool liðsins á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Takumi Minamino fagnar hér með bikarinn á Wembley eftir sigur Liverpool í enska deildabikarnum um síðustu helgi.
Takumi Minamino fagnar hér með bikarinn á Wembley eftir sigur Liverpool í enska deildabikarnum um síðustu helgi. Getty/Chris Brunskill

Japanski knattspyrnumaðurinn Takumi Minamino var enn á ný á skotskónum í bikarleik með Liverpool í gærkvöldi þegar liðið sló út Norwich og komst í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar.

Minamino skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri en hann hefur heldur betur raðað inn mörkum í bikarkeppnunum í vetur.

Minamino var markahæsti leikmaður Liverpool í enska deildabikarnum en hann skoraði þar fjögur mörk í fimm leikjum en hann skoraði einnig úr sinni vítaspyrnu í úrslitaleiknum á móti Chelsea.

Það eru fáir búnir að gleyma endurkomunni á móti Leicester City þar sem Liverpool var 3-1 undir þegar Minamino tók til sinna ráða. Lagði fyrst upp mark fyrir Diogo Jota og skoraði síðan jöfnunarmarkið sjálfur. Liverpool vann leikinn í vítakeppni þar sem Minamino klikkaði reyndar á sinni vítaspyrnu.

Minamino hafði einnig skorað í bikarsigri á Cardiff City í 32 liða úrslitum enska bikarsins og er þar með kominn með þrjú mörk í þremur leikjum í ensku bikarkeppninni á leiktíðinni.

Minamino er langmarkahæsti leikmaður Liverpool í bikarkeppnunum en hann er nú kominn með sjö mörk í átta bikarleikjum. Minamino hefur skorað þremur bikarmörkum meira en næsti maður sem er Diogo Jota.

Minamino hefur reyndar skorað tvö mörk í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að hafa aðeins fengið að spila samanlagt 86 mínútur. Klopp hefur hent honum tíu sinnum inn á undir lok leikja og hann skoraði bæði gegn Arsenal og gegn Brentford.

Minamino hefur aftur á móti ekki skorað á sínum 215 mínútum í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.

Samanlagt gera þetta níu mörk á 890 mínútum eða mark á 99 mínútna fresti sem er alls ekki slæm tölfræði hjá þessum 27 ára Japana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×