Giroud skaut AC Milan á toppinn | Juventus styrkti stöðu sína

Sindri Sverrisson skrifar
Olivier Giroud reyndist hetja AC Milan í kvöld.
Olivier Giroud reyndist hetja AC Milan í kvöld. Francesco Pecoraro/Getty Images

Olivier Giroud skoraði eina mark leiksins er AC Milan heimsótti Napoli í toppslag ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld, lokatölur 1-0. Þá vann Juventus einnig 1-0 sigur gegn Spezia fyrr í kvöld.

Það var mikið undir er Napoli tók á móti AC Milan á Maradona-vellinum í Napoli í kvöld, enda voru liðin jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn og ljóst að sigurliðið myndi tylla sér á toppinn.

Þrátt fyrir nokkur vænleg færi var ekkert skorað í fyrri hálfleiknum og staðan því markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.

Fyrsta og eina mark leiksins leit dagsins ljós snemma í síðari hálfleik þegar Olivier Giroud teygði vinstri löppina í boltann og stýrði þannig skoti Davide Calabria í fjærhornið á 49. mínútu.

Niðurstaðan varð því 1-0 sigur AC Milan og liðið tyllti sér á topp ítölsku deildarinnar. AC Milan er nú með 60 stig eftir 28 leiki, tveimur stigum meira en nágrannar þeirra í Inter og þremur stigum meira en Napoli sem situr í þriðja sæti. Inter á þó einn leik til góða á bæði AC Milan og Napoli og getur því endurheimt toppsætið með sigri í þeim leik.

MILAN TWEET

Þá vann Juventus mikilvægan 1-0 sigur gegn Spezia fyrr í kvöld þar sem Alvaro Morata skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik. Juventus situr í fjórða sæti deildarinnar með 53 stig, sex stigum meira en Atalanta og Roma í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira