Enski boltinn

Jón Daði gulltryggði öruggan sigur Bolton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum í dag.
Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum í dag. Getty/Dave Howarth

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson skoraði þriðja mark Bolton er liðið vann öruggan 3-0 útisigur gegn Gillingham í ensku C-deildinni í fótbolta í dag.

Aaron Morley kom gestunum í Bolton yfir eftir hálftíma leik og staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Heimamenn í Gillingham komu sér í vesen eftir klukkutíma leik þegar Daniel Phillips fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Heimamenn þurftu því að spila seinasta hálftíma leiksins manni færri.

Gestirnir í Bolton nýttu sér liðsmuninn og á 65. mínútu tvöfaldaði Declan John forystu þeirra áður en Jón Daði Böðvarsson gulltryggði 3-0 sigur liðsins stuttu fyrir leikslok.

Jón Daði og félagar sitja í ellefta sæti deildarinnar með 54 stig eftir 36 leiki, sjö stigum minna en Sheffield Wednesday sem situr í sjötta og seinasta umsspilssætinu um laust sæti í B-deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×