Enski boltinn

Tuchel gagnrýnir stuðningsmenn Chelsea: Á þessu augnabliki á að sýna virðingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Tuchel var ekki ánægður með nokkra stuðningsmenn Chelsea í gær.
Thomas Tuchel var ekki ánægður með nokkra stuðningsmenn Chelsea í gær. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Knattspyrnustjóri Chelsea, Thomas Tuchel, gagnrýndi stuðningsmenn félagsins eftir 4-0 sigur liðsins gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Fyrir leikinn klöppuðu stuðningsmenn á vellinum í eina mínútu til að sýna úkraínsku þjóðinni stuðning eftir að Rússar réðust inn í landið fyrir rúmri viku. Það gerðu allavega flestir, en einhverjir stuðningsmenn Chelsea ákváðu að syngja nafn Romans Abramovich á meðan.

Eins og flestir sem fylgjast með ensku úrvalsdeildinni vita er Rússinn Roman Abramovich eigandi Chelsea. Abramovich hefur tilkynnt það að hann ætli sér að selja félagið.

Einhverjir stuðningsmenn Chelsea létu sér ekki nægja að syngja nafn eigandans á meðan þessari mínútu fyrir leikinn stóð, heldur sungu það nánast allan leikinn við litla hrifningu stuðningsmanna Burnley.

„Þetta er ekki rétta augnablikið til að gera svona,“ sagði Tuchel eftir sigur sinna manna.

„Ef við ætlum að sýna samstöðu þá þurfum við að sýna alvöru samstöðu og gera þetta öll saman.“

„Við tökum hné saman og ef einhver mikilvæg manneskja í kringum liðin í deildinni deyr þá höfum við mínútu þögn,“ bætti Þjóðverjinn við.

„Þetta er ekki tímapunkturinn til að senda einhver önnur skilaboð. Á þessu augnabliki á að sýna virðingu. Við viljum gera það og sem félag þurfum við að fá stuningsmennina til að taka þátt í þessu mínútu klappi.“

„Við erum að gera þetta fyrir Úkraínu. Fólkið þar hefur okkar stuðning og við þurfum að standa saman,“ sagði Tuchel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×