Enski boltinn

„Sex leikmenn sem ættu aldrei aftur að spila fyrir Man. United“

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Manchester United voru fljótir að gefast upp í gær að mati Roy Keane sem segir þörf á miklum breytingum í félaginu.
Leikmenn Manchester United voru fljótir að gefast upp í gær að mati Roy Keane sem segir þörf á miklum breytingum í félaginu. Getty/Lynne Cameron

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, var foxillur vegna frammistöðu liðsins gegn Manchester City í gær og sagði United-menn einfaldlega hafa gefist upp.

Kevin De Bruyne og Riyad Mahrez skoruðu tvö mörk hvor fyrir City í öruggum 4-1 sigri þar sem United-menn áttu ekki eitt einasta skot allan seinni hálfleikinn.

„Þeir gáfust upp. Fyrir leikmann í grannaslag eða hvaða leik sem er þá er það óverjanlegt,“ sagði Keane á Sky Sports.

„Fegurðin við leiki á hæsta stigi er að það er hvergi hægt að fela sig. Við sáum öll hvað upp á vantaði hjá United.

Það er hægt að tapa fótboltaleik með ýmsum hætti en United tapaði með því að leikmenn hættu að hlaupa og gáfust upp. Ég botna ekkert í því að leikmenn hlaupi ekki aftur til að verjast,“ sagði Keane.

„Svo langt á eftir hinum liðunum“

„Stjórinn mun fá sína gagnrýni fyrir taktík en það er algjörlega óásættanlegt að leikmenn sem spila fyrir Manchester United hlaupi ekki í vörn. Þeir hentu inn handklæðinu og það er skammarlegt.

Þetta er erfitt þegar maður er að mæta virkilega góðu liði. En menn verða að hlaupa til baka – verða að tækla. Þetta sýnir hvar liðið og félagið er statt. Það er svo langt á eftir hinum liðunum,“ sagði Keane.

Fyrirgefur mistök en ekki að menn hlaupi ekki í vörn

Hann minntist sérstaklega á Aaron Wan-Bissaka, Fred, Harry Maguire og Marcus Rashford sem hefðu valdið honum vonbrigðum í gær en gagnrýndi einnig fleiri.

„Menn verða að sýna smá stolt. Það hlýtur að koma á einhverju stigi. Ég get fyrirgefið mistök en ekki að menn hlaupi ekki aftur í vörn. Ég gæti nefnt fimm eða sex leikmenn sem ættu aldrei aftur að spila fyrir Man. United að mínu mati. Þetta var skammarlegt. Alveg skammarlegt,“ sagði Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×