Enski boltinn

Hrifinn af Luis Diaz hjá Liverpool: Gerir það sem stuðningsmennirnir elska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Diaz fagnar hér sínu fyrsta marki fyrir Liverpool sem kom á móti Norwich City.
Luis Diaz fagnar hér sínu fyrsta marki fyrir Liverpool sem kom á móti Norwich City. EPA-EFE/TIM KEETON

Graeme Souness, fyrrum fyrirliði og knattspyrnustjóri Liverpool, er hrifinn af nýjasta leikmanni liðsins, Kólumbíumanninum Luis Diaz.

Luis Diaz hefur byrjað Liverpool ferilinn vel síðan að Liverpool keypti hann frá Porto í janúarglugganum og átti flottan leik á móti West Ham um helgina.

„Hann hefur gefið öllum aukakraft. Hann er þannig leikmaður að þú sem stuðningsmaður stendur upp úr sætinu þínu. Hann er beinskeyttur, eldsnöggur og agressífur,“ sagði Graeme Souness um hinn 25 ára gamla Luis Diaz.

Það lítur út fyrir að Luis Diaz finni sig líka mjög vel við hlið þeirra Mohamed Salah og Sadio Mane í framlínu Liverpool liðsins.

„Hann gerir það sem stuðningsmennirnir elska. Þegar hann tapar boltanum þá hleypur hann á fullu til baka til að vinna boltann aftur. Hann leikur sér síðan að því að fara fram hjá mönnum,“ sagði Souness.

„Hann er fljótur, beinskeyttur og það er margt hjá honum sem hrífur mann. Þetta leikskipulag hentar honum frábærlega,“ sagði Souness.

„Hann er viðbótarógn fyrir Liverpool liðið. Varnarmenn eru ekki hrifnir að spila á móti mönnum sem geta farið fram hjá þeim með annað hvort hraða eða boltatækni og hann hefur bæði,“ sagði Souness.

„Hann er stórhættulegur og mikill fengur fyrir Liverpool,“ sagði Souness.

Það eru líka fleiri hrifnir eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×