Enski boltinn

Conte: Að ná topp fjögur núna væri eins og að vinna deildina eða Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte þakkar stuðningmönnum fyrir eftir 5-0 stórsigur á Everton á Tottenham Hotspur Stadium í gær.
Antonio Conte þakkar stuðningmönnum fyrir eftir 5-0 stórsigur á Everton á Tottenham Hotspur Stadium í gær. AP/Ian Walton

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, var að sjálfsögðu himinlifandi með frammistöðu sinna manna eftir 5-0 stórsigur á Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Eftir sigurinn þá er Tottenham aðeins þremur stigum á eftir Arsenal í baráttunni um fjórða og síðasta sætið inn í Meistaradeildina en Arsenal á reyndar leik inni á Conte og lærisveina hans.

„Við munum reyna allt okkar en svo sjáum við á endanum hverju það skilar okkur. Nú eru bara tólf leikir eftir og það enginn bikar í boði fyrir okkur,“ sagði Antonio Conte.

„Ég er ekki hrifinn að tala um metnað eða að ná sæti í Meistaradeild því ég vil spila um það að vinna deildina og vinna titla. Í þessari stöðu sem við erum í núna þá gæti þetta verið okkar Meistaradeildartitill, okkar meistaratitill ef við náum þessum fjórða sæti,“ sagði Conte em ESPN segir frá.

„Það er rétt að fagna aðeins en um leið þurfum við að halda einbeitingu og frá og með morgundeginum verðum við að fara að hugsa um laugardaginn. Það verður mikilvægur leikur en ég endurtek að leikmenn mínir mega fagna því að þeir eru að gera frábæra hluti,“ sagði Conte.

„Leikmenn mega fagna en verða að halda einbeitingu og ekki missa augun af markmiðinu. Við eigum eftir tólf leiki og þeir eru allir eins og úrslitaleikir fyrir okkur,“ sagði Conte.

„Ég hef núna sett þetta markmið fyrir liðið mitt og við verðum að stefna á það allan tímann Ég endurtek, að ná einu af efstu fjórum sætunum væri eins og við hefðum unnið ensku úrvalsdeildina eða Meistaradeildina á þessu tímabili,“ sagði Conte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×