Enski boltinn

Marcus Rashford sagður dottinn úr enska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford er í miklum mótvindi þessi misserin.
Marcus Rashford er í miklum mótvindi þessi misserin. Getty/Matthew Ashton

Manchester United-framherjinn Marcus Rashford verður ekki í næsta enska landsliðshóp ef marka má upplýsingar sem hafa lekið í fjölmiðla.

Landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate mun ekki velja Rashford í hópinn sinn fyrir leiki á móti Sviss og Fílabeinsströndinni seinna í þessum mánuði.

Rashford var síðast með enska landsliðinu á Evrópumótinu síðasta sumar en missti af síðustu verkefnum vegna aðgerðar á öxl.

Núna er hann hins vegar leikfær og því í boði fyrir Southgate. Samkvæmt heimildum ESPN þá er Rashford hreinlega dottinn úr enska landsliðinu og um leið er sæti hans í HM-hópnum í hættu.

Hinn 24 ára gamli Rashford hefur verið allt annað en sannfærandi með liði Manchester United síðan að hann kom til baka í október eftir meiðslin.

Hann skoraði í sínum fyrsta leik 16. október en er nú kominn með 5 mörk í 24 leikjum með United á leiktíðinni. Hann hefur aftur á móti aðeins verið í byrjunarliðinu í tveimur af síðustu ellefu leikjum liðsins. Rashford hefur heldur ekki skorað í sjö leikjum í röð.

Southgate hefur verið harður á því að velja ekki menn sem eru að spila illa eða eru að spila lítið. Það breytir engu þótt um stórstjörnu eins og Marcus Rashford er að ræða.

Rashford er náttúrulega þjóðhetja innan sem utan vallar og fékk orðu fyrir baráttu sína fyrir fríum mat í breskum skólum.

Harry Kane, Raheem Sterling, Jack Grealish, Phil Foden og Bukayo Saka eru allir í hópnum og á undan Rashford í goggunarröðinni. Jarrod Bowen hjá West Ham og Dominic Calvert-Lewin hjá Everton gætu líka verið í hópnum og þá er vitað að Southgate er mikill aðdáandi Eberechi Eze hjá Crystal Palace.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×