Enski boltinn

Mér fannst Eriksen vanta faðmlag

Atli Arason skrifar
Williams gefur Eriksen faðmlag eftir samstuð þeirra.
Williams gefur Eriksen faðmlag eftir samstuð þeirra. Getty

Brentford heimsótti Norwich og vann 1-3 sigur í fallbaráttuslag um liðna helgi. Atvikið sem náði flestum fyrirsögnum úr leiknum var þó hvorki mörk eða boltatækni, heldur tækling Christian Eriksen.

Undir lok fyrri hálfleiks fór Brandon Williams, leikmaður Norwich, fram hjá Eriksen áður en sá danski tók hann niður í kjölfarið. Williams var ekki skemmt og sagðist ætla að svara fyrir sig, þar til hann sá hver það var sem lá í grasinu með honum.

„Hann tók mig niður á meðan við vorum á leið í sókn. Ég snöggreiddist og ég ætlaði að halda honum niðri,“ sagði Brandon Williams, leikmaður Norwich í viðtali við Sky Sports.

„Ég hef fylgst með öllu sem hann er búinn að ganga í gegnum og það er ótrúlegt að hann er kominn aftur á völlinn.“

Leikurinn gegn Norwich var fyrsti byrjunarliðsleikur Eriksen síðan hann dó í leik gegn Finnlandi á EM 2020.

„Það er mjög sérstakt fyrir hann að vera byrjaður að spila aftur, mér fannst þarna bara eins og honum vantaði faðmlag. Þetta voru bara einhver viðbrögð hjá mér og eitthvað sem mér fannst það rétta í stöðunni,“ sagði Brandon Williams, leikmaður Norwich.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×