Enski boltinn

Guardiola: Man. City óttast ekki ensku liðin í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola ræðir hér við táninginn James McAtee sem fékk að spreyta sig í Meistaradeildinni í gær.
Pep Guardiola ræðir hér við táninginn James McAtee sem fékk að spreyta sig í Meistaradeildinni í gær. AP/Dave Thompson

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir lið sitt ekki óttast það að mæta liði úr ensku úrvalsdeildinni þegar dregið verður í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Manchester City hefur verið slegið út úr Meistaradeildinni af ensku liði þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum.

City-menn fóru örugglega áfram í átta liða úrslitin þrátt fyrir markalaust jafntefli á móti Sporting Lissabon í gær þökk sé 5-0 stórsigri í fyrri leiknum í Portúgal. Þetta er fimmta árið í röð sem City fer svo langt í keppninni.

Liverpool verður einnig í hattinum og þar gætu líka verið lið Manchester United og Chelsea ef þeim tekst að slá út Atletico Madrid og Lille í næstu viku.

Manchester City tapaði á móti Liverpool 2018, á móti Tottenham 2019 og svo í úrslitaleiknum á móti Chelsea í fyrra. Guardiola var spurður um það á blaðamannafundi hvort hann vildi forðast það að mæta ensku liði í átta liða úrslitunum.

„Ég myndi segja nei,“ sagði Pep Guardiola en ESPN sagði frá.

„Þetta er erfitt fyrir þau og fyrir okkur líka. Þetta er líka erfitt fyrir liðin frá öðrum löndum,“ sagði Guardiola.

„Við erum komnir í átta liða úrslit og munum undirbúa okkur vel. Við sjáum síðan á föstudaginn í næstu viku hverjum við lendum á móti. Það er heiður að vera kominn svo langt því mörg mikilvæg félög eru úr leik,“ sagði Guardiola.

Fjögur lið eru komin áfram því auk Manchester City og Liverpool eru Bayern Münhcen og Real Madrid líka búin að tryggja það að þau verða í hattinum þegar dregið verður eftir rúma viku.

„Þessi fjögur lið sem eru þegar komin áfram eru alls ekki slæm. Nú erum við aftur komnir í átta liða úrslitin með átta bestu liðum Evrópu. Ég hef lært að njóta slíkra stunda. Ég fagna þeim því ég veit hversu erfitt þetta er. Það er erfitt að komast í gegnum alla mótherja,“ sagði Guardiola.

„Nú er kominn tími á að óska öllum til hamingju, einbeita okkur að ensku úrvalsdeildinni og svo munum við sjá í næstu viku hvaða lið kemur upp úr pottinum,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×