Enski boltinn

Liver­pool og New­cast­le fá mánaðar­verð­launin í ensku úr­vals­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Matip fagnar með félögum sínum í Liverpool liðinu.
Joel Matip fagnar með félögum sínum í Liverpool liðinu. AP/Alastair Grant

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, var í dag valinn knattspyrnustjóri febrúar í ensku úrvalsdeildinni og besti leikmaðurinn var valinn Joel Matip, miðvörður Liverpool.

Kamerúnmaðurinn Matip er að fá þessi verðlaun í fyrsta skiptið en þetta er í fjórða skiptið sem Eddie Howe er knattspyrnustjóri mánaðarins. Hin skiptin vann hann þessi verðlaun sem stjóri Bournemouth.

Undir stjórn Eddie Howe þá tapaði Newcastle United ekki leik í febrúar en liðið vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli. Í mánuðinum komst Newcastle líka upp úr fallsæti í fyrsta sinn síðan í september og fór alla leið upp í fjórtánda sæti deildarinnar.

Aðrir stjórar sem komu til grein sem stjóri mánaðarins í febrúar voru þeir Mikel Arteta, Ralph Hasenhuttl og Jürgen Klopp.

Joel Matip lék allar mínútur í boði hjá Liverpool í mánuðinum þar sem liðinu tókst að minnka forskot Manchester City á toppnum.

Matip hjálpaði við að halda hreinu í þremur leikjum en Liverpool vörnin fékk aðeins á sig eitt mark í febrúar.

Matip lagði líka upp mark fyrir Diogo Jota í sigri á Leicester City og skoraði síðan eftirminnilegt mark í 6-0 stórsigrinum á Leeds.

Fimm aðrir komu til greina sem besti leikmaður mánaðarins eða þeir Che Adams, Ryan Fraser, Harry Kane, Ben Mee og Wilfried Zaha.

  • Besti leikmenn mánaðarins á leiktíðinni:
  • Ágúst: Michail Antonio (West Ham)
  • September: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
  • Október: Mohamed Salah (Liverpool)
  • Nóvember: Trent Alexander-Arnold (Liverpool)
  • Desember: Raheem Sterling (Manchester City)
  • Janúar: David De Gea (Manchester United)
  • Febrúar: Joel Matip (Liverpool)
  • -
  • Bestu knattspyrnustjórar mánaðarins á leiktíðinni:
  • Ágúst: Nuno Espirito Santo (Tottenham)
  • September: Mikel Arteta (Arsenal)
  • Október: Thomas Tuchel (Chelsea)
  • Nóvember: Pep Guardiola (Manchester City)
  • Desember: Pep Guardiola (Manchester City)
  • Janúar: Bruno Lage (Wolves)
  • Febrúar: Eddie Howe (Newcastle)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×