Þór heldur lífi í sigurdraumnum

Snorri Rafn Hallsson skrifar
þór xy

Þór var í leiðinlegri stöðu fyrir leikinn í gærkvöldi. Eftir töp gegn Ármanni og Vallea höfðu sigurlíkur liðsins versnað til muna og þurftu Þórsarar nú að vinna alla sína leiki og treysta á að Dusty tapaði öllum sínum. Tap í leiknum myndi því þýða að Þór gæti í besta falli endað í öðru sæti deildarinnar.

Það telst varla umferð í Ljósleiðaradeildinni nema einhver lið velji að fara í Nuke og í þetta skiptið voru það Þór og XY sem skelltu sér til Cedar Creek í einhverju af I-ríkjum Bandaríkjanna. XY hafði betur í hnífalotunni, byrjaði í vörn (Counter-Terrorists), varðist framarlega og var ekki lengi að slökkva í Þórsurum. Tvíeykið úr Sögu, Criis og Pandas, lokaði þriðju lotunni fyrir XY án þess að liðið biði nokkurn skaða.

XY var á góðri siglingu í upphafi, allt þar til Þórsarar komust í gang. Ás frá Allee í lotu sem hefði átt að falla með XY minnkaði muninn niður í eitt stig og fékk vappa að launum. Fóru Þórsarar hægt og rólega eins og kyrkislanga til að koma sér yfir. Hvorki gekk né rak hjá XY sem réði ekki við fullvopnaða Þórsarana.

XY tók þá tvö leikhlé til að ráða ráðum sínum, en opnanir frá Dabbeh, stuðningur frá Rean og mikil hittni hjá Allee skilaði sínu. Oftar en ekki voru leikmenn Þórs að fella þrjá einir síns liðs, og náði Zolo meira að segja öðrum ás leiksins í elleftu lotu. Var staðan þá orðin 8–3 fyrir Þór og XY ekki fengið stig síðan í upphafi leiksins. Það tókst loks hjá XY í þrettándu lotu og náði XY að klóra í bakkann undir lok hálfleiks.

Staða í hálfleik: Þór 9 – 6 XY

Liðin skiptu með sér skammbyssulotunum, sem og fyrstu 4 lotunum í síðari hálfleik. Leikmenn XY voru sprækir eftir sprettinn þar á undan. Það var því komið að þeim að tengja saman nokkrar lotur í röð. Fór XY hratt um kortið og réðu blankir Þórsarar illa við að hindra það að XY kæmi sprengjunni niður.

Virtust Þórsarar andlausir og eins og þeir hefðu ekki trú á aðgerðum sínum. Þegar XY hafði jafnað leika, 11–11 leit út fyrir að Allee mynd hafa betur gegn tveimur leikmönnum XY og koma Þór aftur yfir en J0n tókst að bjarga lotunni fyrir horn. XY keyrði á sömu taktík trekk í trekk enda engin ástæða að breyta því sem virkar. Þór jafnaði þá á ný eftir að XY hafði unnið sex lotur í röð með því einfaldlega að hitta úr öllum skotunum sínum.

Allee var nálægt því að koma Þór aftur yfir þegar hann felldi tvo leikmenn XY en honum gafst ekki nægur tími til að aftengja sprengjunna eftir að KeliTurbo hafði takið hann í reykjarmekki. Hvorugt liðið ætlaði að gefast upp og Dabbeh jafnaði aftur fyrir Þór með þrefaldri fellu og Peterr kom þeim í 14–13 með þrefaldri fellu.

Börðust bæði lið hart en ljóst var að Þór ætlaði alls ekki að færa Dusty sigurinn í deildinni á silfurfati alveg strax. Unnu þeir síðustu fjórar loturnar í leiknum eftir að hafa lent undir og náðu að knýja fram sigur í leiknum.

Lokastaða: Þór 16 – 13 XY

Enn eiga Þórsarar því möguleika á að vinna deildina, en til þess þurfa þeir bæði að spila vel og vera heppnir. Í næstu viku mætir Þór Sögu þriðjudaginn 15. mars en XY tekur á móti Dusty föstudaginn 18. mars. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir