Frítíminn

Bankið í ofninum: Hvað þarf til að kenna atvinnubílstjórum að keyra?

Pétur Blöndal skrifar
Pétur Blöndal skrifar vikulega pistla á Innherja.
Pétur Blöndal skrifar vikulega pistla á Innherja.

Það virðist vera lenska hjá hinu opinbera að hlaða stöðugt utan á skilyrðin sem fylgja hinum ýmsu leyfisveitingum.

Ef marka má reynslu atvinnubílstjóra er þess varla langt að bíða að til þess að halda atvinnuleyfi sínu verði kokkar skyldaðir til að sitja fyrirlestra um hvernig sé best að laga pasta „al dente“, leikarar minntir á að þeir þurfi að læra textann utanbókar fyrir frumsýningu og prestar áminntir um að mikilvægt sé að muna nöfn þeirra sem þeir jarðsyngja.

Til þess að atvinnubílstjórar í farþega- og vöruflutningum fái að halda atvinnuréttindum sínum er þeim nefnilega skylt á hverjum fimm árum að sitja undir fyrirlestrum í fimm daga, sjö tíma í senn, um það hvernig best sé að aka bíl. Nokkuð sem þeir hafa þegar menntað sig í og fást við allan liðlangan daginn.

Að vísu er hægt að fá endurnýjun á meiraprófi án þess að atvinnuréttindin fylgi og þá þarf ekki að lesa neitt yfir neinum. En þeir sem hafa akstur að atvinnu þurfa að sitja þessi endurmenntunarnámskeið – annars missa þeir leyfið til að aka stórum ökutækjum í atvinnuskyni og þar með ef að líkum lætur vinnuna. Eins og atvinnubílstjórar þurfi frekar á slíkri endurmenntun um aksturinn að halda en fólk sem ekur aðeins stórum ökutækjum endrum og eins.

Ekki skilja allir málið

Ég heyrði í sjálfstæðum atvinnubílstjóra sem þurfti að fórna fimm dögum til að sitja fyrsta fimm daga námskeiðið, sem annars hefðu nýst í vinnu eða frí með fjölskyldunni og óhætt er að segja að það hafi verið þungt í honum hljóðið.

Þarna voru líka bæjarstarfsmenn, sem fengu borguð laun og þurftu ekki að standa straum af námskeiðsgjöldum og fannst þetta bara fínt frí frá daglegum störfum – að hangsa þarna og lesa fréttir.

Hann nefndi til dæmis námskeiðið fagmennska og mannlegi þátturinn. „Ég hef verið leiðsögumaður í tuttugu ár og nú þarf ég að sitja undir ræðu um að það sé mikilvægt að vera snyrtilegur þegar ég hitti ferðamenn,“ segir hann. „Eins og ég viti það ekki?“

Hann segir allt námið hafa verið eins og farsakennt leikrit. „Í fyrirlestrarsalnum voru margir útlendir bílstjórar, sem voru bara í tölvuleikjum í farsímanum, því þeir skildu ekki orð sem sagt var – núll. Þarna voru líka bæjarstarfsmenn, sem fengu borguð laun og þurftu ekki að standa straum af námskeiðsgjöldum og fannst þetta bara fínt frí frá daglegum störfum – að hangsa þarna og lesa fréttir. Á meðan þeir fengu laun frá hinu opinbera var ég að missa daga frá vinnu eða fjölskyldu.“

Vistakstur og umferðarreglur

Þegar Covid setti strik í reikninginn var blessunarlega farið að bjóða upp á fjarkennslu. Nú geta menn setið allan daginn við tölvuskjáinn heima hjá sér á meðan farið er yfir pensúmið. Og standa upp miklu betri bílstjórar – eða að minnsta kosti samræmdir evrópsku regluverki.

Þá hafa þeir hlustað á aðra þylja upp það sem þeir fást sjálfir við á hverjum degi í vinnu sinni, svo sem vistakstur, hvernig eigi að gæta öryggis í akstri, umferðarreglur, náttúruvernd, akstur við ólík veðurskilyrði og mjúkan akstur. Það eina verklega er skyndihjálparnámskeið og óvíst að fáist metið þó að menn hafi nýlokið slíku námskeiði annars staðar.

Það ætti því að vera skaðlaust að Ísland fengi undanþágu frá þessum námskeiðum eða að þau yrðu valfrjáls, þannig að menn gætu borið sig eftir þeim hygðust þeir hefja atvinnurekstur á malbiki meginlandsins.

„Í guðs bænum ekki nefna að það sé ekkert verklegt,“ segir einn viðmælandi. „Guð minn góður að þeir fari að setja okkur í það. Við keyrum tugi þúsunda kílómetra á ári. Þeir munu alveg finna leiðir til að láta okkur læra að bremsa í hálku. Ég ætti frekar að kenna þeim það!“

Einn ökukennari, sem talað var við þegar pistillinn var skrifaður, segist ekki vilja kenna þessi námskeið. Hann treysti sér ekki til þess sem ökukennari að fara með þessar rullur fyrir atvinnubílstjóra.

Og aðspurður segir jeppaleiðsögumaður að ekkert sitji eftir frá námskeiðunum, sem hann vissi ekki áður. – En gerirðu eitthvað öðruvísi? „Nei,“ svarar hann og hlær. „Ég er búinn að vera í þessum bransa í áratugi. Og þarna á að kenna mér að reykja ekki fyrir framan kúnnann?! En ekki hvað!? Ég yrði rekinn af fyrirtækinu ef ég gerði það.“

Eyríkið Ísland

Megintilgangurinn með námskeiðunum samkvæmt reglugerð ESB frá 2003, sem innleidd var hér á landi sumarið 2015, mun vera að samræma forsendur grunnmenntunar atvinnubílstjóra á meginlandi Evrópu. Skýringin er sú að akstursleiðin liggur oft um mörg lönd og kröfur í hverju landi til ökuréttinda geti verið ólíkar. Þess vegna var ákveðið láta atvinnubílstjóra um alla Evrópu sitja heilu dagana á námskeiðum á fimm ára fresti.

En hefði ekki mátt velta upp þeirri spurningu, svona áður en bílstjórar hér á landi voru samræmdir evrópsku regluverki, hvort eyríkið Ísland nyti ekki nokkurrar sérstöðu. Atvinnubílstjórar hér á landi komast ekki langt ef þeir hyggjast aka út fyrir lögsögu Íslands. Enn hafa ekki verið lögð jarðgöng til Vestmannaeyja – hvað þá til meginlandsins. Það ætti því að vera skaðlaust að Ísland fengi undanþágu frá þessum námskeiðum eða að þau yrðu valfrjáls, þannig að menn gætu borið sig eftir þeim hygðust þeir hefja atvinnurekstur á malbiki meginlandsins.

Ætli það sé nokkuð síður hagnýtt nám fyrir atvinnubílstjóra, en að hlusta á fyrirlestra um vegakerfi landsins og gatnakerfi þéttbýlis?

Ég heyrði í ökukennara sem tók þátt í umræðunni um að innleiða námskeiðin hér á landi. Hann impraði á því að mikilvægt væri að bílstjórar sæktu sér endurmenntun. Og víst er um það, að öllum er hollt að sækja endurmenntun, en spurningin er hvort það eigi ekki að vera valkvætt og hvort menn eigi ekki að hafa val um það hvenær og í hverju þeir sérhæfa sig. Þannig er það jú í flestum öðrum starfstéttum.

Í næstu viku er til dæmis að hefjast námskeiðið Að verða betri en ég er hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, þar sem sálfræðingarnir Jóhann Ingi Gunnarsson og Bragi Sæmundsson fara yfir hvað þurfi til að ná hámarksárangri í lífi og starfi. Svo er líka hægt að fræðast um lystisemdir Parísar, áfangastaðinn Ísland, ættfræðigrúsk og fjármál við starfslok. Ætli það sé nokkuð síður hagnýtt nám fyrir atvinnubílstjóra, en að hlusta á fyrirlestra um vegakerfi landsins og gatnakerfi þéttbýlis?


„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í óborganlegum þáttum Fóstbræðra og fórnaði höndum. Í þessum pistlum sem birtast vikulega á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér að „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.

Pétur Blöndal p.blondal@gmail.com.






×