Enski boltinn

Ætlunin er að vera eins pirrandi og hægt er

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp segir að Liverpool sé að spila hvern úrslitaleikinn á fætur öðrum um þessar mundir.
Jürgen Klopp segir að Liverpool sé að spila hvern úrslitaleikinn á fætur öðrum um þessar mundir. EPA-EFE/TIM KEETON

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að liðið ætli sér að vera „eins pirrandi og hægt er“ í baráttu sinni við Manchester City um enska deildarmeistaratitilinn.

Liverpool er nú fjórum stigum á eftir City eftir að þeir síðarnefndu gerðu markalaust jafntefli gegn Crystal Palace í gær. Þá á Liverpool einn leik til góða á City og liðin eiga einnig eftir að mætast innbyrðis áður en tímabilinu lýkur.

Liverpool mætir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld og takist liðinu að vinna þann leik er munurinn á Liverpool og City kominn niður í aðeins eitt stig.

„Við ætlum okkur að setja pressu á City,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag. „Ætlunin er að vera eins pirrandi og hægt er. Við verðum að vinna okkar leiki.“

„Þetta er hver úrslitaleikurinn á fætur öðrum sem við erum að spila. Við erum ekki með tíu stiga forskot þegar það eru tíu leikir eftir. Þetta er þarna fyrir framan okkur og við verðum að ráðast á það, elta það, ætla okkur það. Það er eini möguleikinn sem við höfum.“

Eins og áður segir þá sækir Liverpool Arsenal heim annað kvöld. Liverpool hefur unnið seinustu átta leiki sína í ensku úrvalsdeildinni, en Arsenal hefur einnig verið á góðu skriði og unnið seinustu fimm leiki sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×