Enski boltinn

Paul Pogba: Versta martröð fjölskyldunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba faðmar markmann sinn David de Gea í leik Manchester United á dögunum.
Paul Pogba faðmar markmann sinn David de Gea í leik Manchester United á dögunum. Getty/Simon Stacpoole/

Brotist var inn í hús Manchester United leikmannsins Paul Pogba á meðan hann var að spila í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið. Hann lofar verðlaunum fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku þeirra seku.

„Í fyrrakvöld upplifðum við verstu martröð fjölskyldunnar þegar brotist var inn á heimili okkar og við rænd á meðan börnin okkar voru sofandi í herbergjunum sínum,“ skrifaði Paul Pogba á samfélagsmiðla sína.

„Innbrotsþjófarnir voru inn á heimili okkar í minna en fimm mínútur en á þeim tíma tóku þeir frá okkur eitthvað sem er meira virði en nokkuð annað eða öryggistilfinninguna,“ skrifaði Pogba.

María Zulay Salaues, kona hans, var á Old Trafford til að fylgjast með sínum manni spila en þau eiga tvö ung börn saman.

„Þetta gerðist á lokamínútunum í leiknum í gær þegar þeir vissu að við værum ekki heima. Ég og konan mín drifum okkur heim án þess að vita fyrir vissu hvort börnin okkar væru örugg og ómeidd. Ég sem faðir get vottað það að það er engin tilfinning verri en að geta ekki verið til staðar til að verja börnin mín. Ég vona innilega að enginn þurfi að upplifa það sem ég upplifði í gær,“ skrifaði Pogba.

Hann lofar síðan verðlaunum fyrir þann sem getur gefið vísbendingu um hverjir voru að verki. Þeir sem telja sig vita meira geta sent honum póst á rewardpogba@gmail.com.

Þetta er í þriðja sinn á þessu tímabili þar sem leikmenn í Manchester-liðunum verða fyrir barðinu á innbrotsþjófum. Það var brotist inn hjá United-manninum Victor Lindelof í janúar og það var síðan ráðist á City-manninn Joao Cancelo í innbroti í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×