Enski boltinn

Batt sig við stöngina til að mótmæla nýjum olíusvæðum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Áhorfandinn náði að koma sér inn á völlinn og binda sig við markstöngina.
Áhorfandinn náði að koma sér inn á völlinn og binda sig við markstöngina. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Furðulegt atvik átti sér stað í leik Everton og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi þegar áhorfandi komst inn á völlinn og náði að binda sig við stöngina á marki Everton.

Áhorfandinn náði að binda bensli utan um stöngina og hálsinn á sér og stóða þar fastur. Vallarstarfsmenn áttu í stökustu vandræðum með að losa manninn, en eftir nokkrar mínútur var hann borinn af velli.

Maðurinn var í bol sem á stóð „Just Stop Oil,“ eða „Stöðvið Olíu,“ og var með athæfi sínu að mótmæla nýjum olíusvæðum í Norðursjó.

Atvikikið átti sér stað þegar síðari hálfleikur var ekki nema um fimm mínútna gamall, en það þurfti hvorki meira né minna en sex manns og stórar vírklippur til að losa manninn frá stönginni.

Lögreglan í Liverpool hefur staðfest að 21 árs maður hafi verið handtekinn fyrir að ryðjast inn á völlinn. Þá var annar maður handtekinn í tengslum við málið, en sá ruddist inn á völlinn og virtist reyna að slá til þess sem stóð bundinn við stöngina. Væntanlega hefur sá verið pirraður á því að leikurinn gæti ekki haldið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×