Dramatískur endurkomusigur Leeds gegn tíu Úlfum

Luke Ayling fagnar sigurmarkinu með liðsfélögum sínum.
Luke Ayling fagnar sigurmarkinu með liðsfélögum sínum. Laurence Griffiths/Getty Images

Leeds United vann afar mikilvægan sigur gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Úlfarnir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins, en Leeds snéri taflinu við eftir að Raúl Jiménez fékk að líta rauða spjaldið.

Heimamenn í Wolves tóku forystuna eftir 25 mínútna leik með marki frá Jonny eftir stoðsendingu frá Trincao.

Trincao var svo sjálfur á ferðinni þegar hann kom Úlfunum í 2-0 í uppbótartíma fyrri hálfleiks og þannig var staðan þegar gengið var til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var ekki nema átta mínútna gamall þegar Raúl Jiménez í liði Wolves fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt. Hann lenti þá í hörðu samstuði við Illan Meslier, markvörð Leeds, með þeim afleiðingum að markvörðurinn þurfti að fara af velli.

Það má með sanni segja að gestirnir í Leeds hafi nýtt sér liðsmuninn því liðið sótti stanslaust eftir þetta rauða spjald. Jack Harrison minnkaði muninn á 63. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin jöfn eftir mark frá Rodrigo.

Það var svo bakvörðurinn Luke Ayling sem tryggði Leeds mikilvægan 3-2 sigur með marki í uppbótartíma.

Leeds situr nú í 16. sæti deildarinnar með 29 stig eftir 30 leiki, átta stigum fyrir ofan fallsvæðið. Úlfarnir sitja í áttunda sæti með 46 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira