Enski boltinn

Gerrard segir Saka að hætta að væla: „Þetta er ekki íþrótt án snertinga“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bukayo Saka fannst leikmenn Aston Villa sparka full mikið í sig.
Bukayo Saka fannst leikmenn Aston Villa sparka full mikið í sig. afp/Nick Potts

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa, gaf lítið fyrir umkvartanir Bukayos Saka, leikmanns Arsenal, um að Villa-menn hefðu verið grófir í leik liðanna á laugardaginn.

Saka skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik. Eftir leik sagðist hann hafa beðið dómarann Andy Madley um meiri vernd þegar leikmenn Villa spörkuðu í hann. Gerrard fannst ekki mikið til þessara ummæla Sakas koma. 

„Sagði hann að við værum of harðir? Brutu þeir aldrei af sér? Þetta er hluti af leiknum,“ sagði Gerrard.

„Síðast þegar ég kannaði er þetta ekki íþrótt án snertinga. Tæklingar eru leyfðar, harka er leyfð. Saka er góður leikmaður. Ég elska hann. En hann getur ekki kvartað yfir þessu. Þetta er fótbolti.“

Gerrard kallaði ekki allt ömmu sína sem leikmaður og sagði að Saka yrði einfaldlega að venjast hörkunni í enska boltanum.

„Ég sit hérna með skrúfur í mjöðminni. Ég hef farið í um sextán aðgerðir. Ég á erfitt með að fara í ræktina. Allt út af því að hafa unnið fyrir mér í enska boltanum. Hann lærir og það fljótt,“ sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×