Enski boltinn

Fjórir af fimm launahæstu á Englandi leika með United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jadon Sancho og Cristiano Ronaldo eiga fyrir salti í grautinn.
Jadon Sancho og Cristiano Ronaldo eiga fyrir salti í grautinn. getty/James Gill

Manchester United borgar bestu launin í ensku úrvalsdeildinni ef marka má lista L'Équipe yfir launahæstu leikmenn deildarinnar.

Samkvæmt úttekt franska blaðsins leika fjórir af fimm launahæstu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar með United. 

Það kemur kannski fáum á óvart að Cristiano Ronaldo er á toppi listans en talið er að hann fái 2,2 milljónir punda í mánaðarlaun. Það gerir 26,4 milljónir punda í árslaun.

Kevin De Bruyne, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, er næstlaunahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 1,7 milljónir punda í mánaðarlaun. Næstu þrír á launalistanum leika allir með United. Þetta eru þeir David De Gea, Jadon Sancho og Raphäel Varane. Þeir tveir síðastnefndu komu til United fyrir tímabilið líkt og Ronaldo.

United er fjórða tekjuhæsta félag heims samkvæmt úttekt Deloitte. Á síðasta tímabili var United með 558 milljónir evra í tekjur. City er efst á listanum, Real Madrid í 2. sæti, Bayern München í því þriðja og Barcelona númer fjögur.

Þótt United þéni mikið og borgi góð laun hefur það ekki skilað sér í árangri inni á vellinum. Liðið er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, dottið út úr ensku bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu og hefur ekki unnið titil síðan 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×