Enski boltinn

George Clooney opnar á möguleikann á að kaupa enskt fótboltafélag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
George Clooney og eiginkona hans Amal Clooney á verðlaunahátíð í London.
George Clooney og eiginkona hans Amal Clooney á verðlaunahátíð í London. EPA-EFE/VICKIE FLORES

Heimsfrægur bandarískur leikari gæti bæst í hóp þeirra útlendinga sem eiga knattspyrnufélag í Englandi. Hann útilokar ekki slík afskipti að enska boltanum.

Margir ríkir útlendingar hafa komið inn í enska boltann á síðustu áratugum og flestir þeirra koma frá Bandaríkjunum eða miðausturlöndum. Hollywood virðist vera að vakna líka.

Leikararnir Ryan Reynolds og Rob McElhenney eignuðust Wrexham fyir ári síðan og nú gæti enn stærra nafn í Hollywood fylgt í þeirra fótspor. Það er alla vega draumurinn í Derbyshire sýslu.

George Clooney er einn frægasti leikari heims og í nýju viðtali opnar hann fyrir möguleikann á því að kaupa enskt fótboltafélag. Við erum þó ekki að tala um Chelsea, sem er til sölu, heldur félag í miklum greiðsluvandræðum.

Félagið sem Clooney hefur áhuga á er Derby County. Svo gæti nefnilega farið svo að George Clooney hjálpi knattspyrnustjóri Wayne Rooney að endurvekja þetta gamla stórveldi svo framarlega sem markahæsti leikmaður enska landsliðsins haldi þetta út.

Derby er í miklum fjárhagsvandræðum og svo miklum að félagið þurfti að byrja tímabilið í ensku b-deildinni með 21 stig í mínus. Clooney talaði sjálfur um Derby í viðtali við tímaritið Derbyshire Life.

„Derby er frábært fótboltafélag með frábæra sögu og ég er viss um að það á frábæra framtíð fyrir sér líka,“ sagði George Clooney í viðtalinu við Derbyshire Life.

Hinn sextugi Clooney fékk áhuga á Derby Conty eftir að hann kynntist leikaranum Jack O'Connel sem er fæddur í Derbyshire.

„Áhugi minn á fótbolta hefur vaxið mikið á síðustu árum og að eiga fótboltafélag er ef til vill það næstbesta á eftir því að spila fyrir félag. Kannski, einn daginn. Ég veit að það hafa verið vandræði undanfarið en það er ekkert sem ekki er hægt að laga,“ sagði Clooney.

Þrátt fyrir öll mínus stigin þá hefur Derby átt gott tímabil. Liðið er vissulega í síðasta sæti deildarinnar en á enn möguleika á að bjarga sér frá falli í C-deild sem er magnað miðað við það að byrja í -21 stigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×