Enski boltinn

Van Gaal segir Ten Hag að fara ekki til United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Louis van Gaal gerði Manchester United að bikarmeisturum 2016.
Louis van Gaal gerði Manchester United að bikarmeisturum 2016. getty/Matthew Ashton

Louis van Gaal, þjálfari hollenska fótboltalandsliðsins, ræður landa sínum, Erik ten Hag, frá því að taka við Manchester United.

Ten Hag, sem stýrir Ajax í heimalandinu, þykir líklegastur til að taka við United af Ralf Rangnick eftir tímabilið. Hann hefur þegar rætt við forráðamenn United.

Van Gaal þekkir það að stýra United en hann var með liðið á árunum 2014-16. Undir hans stjórn varð United bikarmeistari 2016. Van Gaal segir að Ten Hag ætti að halda sig fjarri United.

„Erik ten Hag ætti að fara til fótboltafélags, ekki viðskiptafélags. Manchester United er viðskiptafélag,“ sagði Van Gaal.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Van Gaal baunar á United fyrir að hugsa meira en viðskipti og markaðsmálin frekar en sjálfan fótboltann.

Hollensku strákarnir hans Van Gaals mæta Þjóðverjum í vináttulandsleik í Amsterdam annað kvöld. Á föstudaginn vann Holland Danmörku, 4-2. Van Gaal gat ekki stýrt hollenska liðinu í leiknum vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×