Enski boltinn

Dómararnir gætu æft með stjörnum ensku úrvalsdeildarinnar

Sindri Sverrisson skrifar
Vonir standa til þess að hægt sé að auka gagnkvæman skilning á milli leikmanna og dómara með því að hleypa dómurum inn á æfingasvæði félaganna.
Vonir standa til þess að hægt sé að auka gagnkvæman skilning á milli leikmanna og dómara með því að hleypa dómurum inn á æfingasvæði félaganna. Getty/Sebastian Frej

Hugmynd Ralfs Rangnick, knattspyrnustjóra Manchester United, um að dómarar í ensku úrvalsdeildinni stundi sínar æfingar hjá félögunum í deildinni, gæti orðið að veruleika frá og með næstu leiktíð.

Rangnick stakk upp á þessu á fundi þar sem knattspyrnustjórarnir í deildinni fengu tækifæri til að tjá skoðanir sínar með Mike Riley, yfirmanni dómaramála í Englandi, en Daily Mail fjallar um málið.

Rangnick telur að með því að fá Anthony Taylor, Michael Oliver, Kevin Friend og aðra dómara inn á æfingasvæði félaganna geti það stuðlað að bættu sambandi á milli dómara og leikmanna og fækkað neikvæðum, fyrirframgefnum hugmyndum.

Aðrir knattspyrnustjórar tóku vel í tillögu Rangnicks og nú munu Riley og félagar skoða málið betur og hver besta útfærslan yrði. Samkvæmt Daily Mail gæti þetta orðið að veruleika strax á næstu leiktíð.

Hugmyndin er sú að dómarar fengju aðgang að æfingasvæðum félaganna og myndu jafnframt dæma leiki þar.

Fleiri mál voru rædd á fundinum og sögðu nokkrir stjóranna, þar á meðal Jürgen Klopp, Rangnick og Frank Lampard, mikla þörf fyrir meiri sérhæfingu og þjálfun myndbandsdómara.

Þá sagði Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, ljóst að eitthvað þyrfti að breytast varðandi það hve lítið væri dæmt á leikaraskap leikmanna. Þar væri ekki farið eftir lagabókstafnum og að menn virtust „ekki mega tækla en mega dýfa sér“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×