Enski boltinn

Reiður eftir að Maguire mátti þola baul frá eigin stuðningsmönnum

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Maguire í leiknum gegn Fílabeinsströndinni á Wembley í gær, þar sem baulað var á hann.
Harry Maguire í leiknum gegn Fílabeinsströndinni á Wembley í gær, þar sem baulað var á hann. Getty/Alex Pantling

Stuðningsmenn enska landsliðsins í fótbolta bauluðu á Harry Maguire, miðvörð Manchester United, þegar hann var kynntur til leiks á Wembley í gærkvöld fyrir vináttulandsleikinn við Fílabeinsströndina.

England vann leikinn 3-0 en Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, var engu að síður ósáttur eftir leik og harmaði hegðun stuðningsmannanna.

„Þessar móttökur voru grín. Algjört grín,“ sagði Southgate.

Maguire hefur átt erfitt tímabil með Manchester United og valdið miklum vonbrigðum en verið í stóru hlutverki hjá enska landsliðinu sem komist hefur í undanúrslit HM og úrslitaleik EM á undanförnum árum.

Sumir stuðningsmanna enska landsliðsins héldu áfram að baula á Maguire þegar hann snerti boltann fyrst í leiknum en þetta var 42. landsleikur þessa 29 ára miðvarðar.

Gætu örugglega ekki svarað því af hverju þeir gerðu þetta

„Ég veit ekki hverjum þetta á að gagnast,“ sagði Southgate um baul stuðningsmannanna.

„Annað hvort erum við í þessu saman eða ekki. Ég er viss um að ef maður spyrði nokkra þeirra þá gætu þeir örugglega ekki svarað því af hverju þeir gerðu þetta. Þetta er múgæsingur. Á einum enda leikvangsins vorum við með harðkjarna stuðningsmenn sem reyndu að fá nafnið hans sungið – þetta voru ekki allir,“ sagði Southgate.

Komið fyrir fleiri

„Leikmenn munu horfa á þetta og hugsa með sér; Þetta gæti verið ég. Þetta fær leikmenn til að vilja ekki koma. Þetta kom fyrir John Barnes hérna, þetta kom fyrir Ashley Cole nokkrum sinnum, þetta kom fyrir Raheem og núna Harry,“ sagði Southgate.

„Við þurfum á því að halda að Harry spili vel. Við vinnum ekki HM með fullt af leikmönnum sem hafa bara spilað 3-4 landsleiki. Það hefur aldrei gerst í sögu leiksins,“ sagði Southgate og var greinilega mikið niðri fyrir.

Fleiri hafa gagnrýnt hegðun stuðningsmannanna, meðal annars Declan Rice liðsfélagi Maguire í landsliðinu:

„Algjörlega til skammar hjá þeim sem að bauluðu í kvöld. Harry Maguire hefur verið ótrúlegur í hvert einasta skipti sem hann klæðist ensku landsliðstreyjunni. Þetta er orðið algjört kjaftæði. Styðjið ykkar eigin leikmenn. Sérstaklega nú þegar stórmót nálgast,“ sagði Rice og vísaði til HM í Katar í lok árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×