Fyrstu Grammy tilnefningar Ólafs
„Grammy verðlaunin voru ekki á radarnum mínum um raunhæfa hluti í lífinu,“
sagði Ólafur í viðtalinu. Ólafur er tilnefndur fyrir tvö lög af nýjustu breiðskífu sinni Some kind of peace. Hann er tilnefndur í flokki raf- og danstónlistar fyrir lagið Loom og einnig er lagið The Bottom Line tilnefnt fyrir bestu útsetningu, hljóðfæraleik og söng.
Lagið var mótað á einum degi
Ólafur segir í viðtalinu að lagið Loom hafi orðið til á einum degi hér á Íslandi en svo gleymst í ár þar til hann var að búa til plötuna sína og hann hafi enduruppgötvað það. Þá var Covid komið og lagið klárað í rafrænum samskiptum.
Hann segir tilnefningarnar vera óraunverulegar og sjokkerandi þar sem hann hefur verið að fylgjast með verðlaununum frá því að hann var barn. Hann segist hafa hringt í mömmu sína sem hafi líka verið dolfallin. Þegar tilnefningarnar voru opinberaðar gaf tónlistarmaðurinn úr tilkynningu þar sem hann sagði meðal annars:
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ tilnefningar til Grammy-verðlauna og það er mér ótrúlegur heiður.“
Stór nöfn og mikill heiður
Aðrir tónlistarmenn í hans flokkum eru David Guetta, James Blake, Jacob Collier, Tiësto,Caribou og Bonobo sem á annað tilnefnt lag í sama flokki. Ólafur segir í viðtalinu að það væri gaman að breyta því að engir kvenkyns tónlistarframleiðendur séu tilnefndir í raf- og danstónlistar flokknum því það vanti ekki framboðið af þeim.
Tónlistarmaðurinn Jon Batiste er með flestar tilnefningar til verðlaunanna eða alls ellefu talsins. Þar á eftir koma Justin Bieber, Doja Cat og H.E.R. með átta tilnefningar hvort. Billie Eilish og Olivia Rodrigo fylgja með sjö tilnefningar en Billie vann um helgina Óskarsverðlaunin fyrir lagið sitt No time to die sem var í samnefndri James Bond kvikmynd.