Enski boltinn

Klopp: Þetta var eins og boxbardagi

Atli Arason skrifar
Klopp fagnar.
Klopp fagnar. EPA-EFE/Chris Brunskill

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, naut þess að fylgjast með þeim fótbolta sem boðið var upp á Etihad-vellinum í gær í 2-2 jafntefli Manchester City og Liverpool.

„Þetta var frábær fótboltaleikur, þetta var svona eins og boxbardagi. Um leið og annað hvort liðið tók löppina af bensíngjöfinni þá fékk það rothögg. Ákafinn í leiknum var mjög mikill, ég er ánægður með margt. Í klefa eftir leikinn þá fannst okkur samt að við hefðum kannski getað fengið meira úr leiknum,“ sagði Klopp við beIN sport eftir leikinn í gær.

„Þú verður samt að virða gæðin sem þeir hafa, jafntefli var sanngjörn niðurstöða. Við verðum bara að halda áfram héðan í frá.“

Jafntefli þýðir að Manchester City er enn þá með eins stigs forskot á Liverpool þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni. Klopp segir ekkert annað í stöðunni en fara inn í síðustu leikina til að vinna þá og halda uppi pressunni á Manchester City.

„Sögulega séð, þá tapa þeir ekki mörgum leikjum,“ sagði Klopp um lið Manchester City.

Klopp minnti alla á hvað það munaði litlu á liðunum tímabilið 2018/19 þegar City vann deildina með einu stigi meira en Liverpool. Í leik liðanna á Etihad það tímabilið bjargaði John Stones, leikmaður City, marki um 17 millimetrum frá því að boltinn fór allur yfir marklínuna í eins mark sigri City. Stundum snýst þetta um heppni að mati Klopp.

„Það mun enginn horfa til baka á okkur í framtíðinni og gefa okkur bikar fyrir að vera 17 millimetrum frá því að vinna.“

„Stundum verðuru að treysta á heppnina og við verðum að reyna á okkar lukku. Við verðum að halda hausnum uppi og vinna síðustu sjö leiki okkar,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×