Enski boltinn

Klopp og Guardiola þeir langlífustu eftir brottrekstur Dyche

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Verða líklega ekki reknir í bráð.
Verða líklega ekki reknir í bráð. vísir/Getty

Starfsöryggi knattspyrnustjóra í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er ekki ýkja mikið eins og Sean Dyche fékk að kynnast í morgun þegar hann var rekinn frá Burnley.

Dyche hefur náð eftirtektaverðum árangri á undanförnum árum þá sérstaklega þegar litið er til smæð félagsins en hann er nú orðinn atvinnulaus eftir tæp tíu ár í starfi.

Þessi fimmtugi Englendingur tók við Burnley 30.október 2012 og var þangað til í morgun lífseigasti knattspyrnustjóri deildarinnar og það með nokkrum yfirburðum.

Í kjölfar brottreksturs Dyche er Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, nú sá stjóri sem hefur enst lengst í starfi í deildinni en hann tók við stjórnartaumunum hjá Liverpool 8.október 2015. Næstur á eftir honum á listanum er hans helsti keppinautur; Pep Guardiola sem tók við Manchester City 1.júlí 2016.

Þar á eftir kemur svo hinn danski Thomas Frank sem hefur hafið Brentford til vegs og virðingar frá því hann tók við liðinu í október 2018 en liðið er nýliði í ensku úrvalsdeildinni.

Frá stofnun úrvalsdeildarinnar 1992 er Sir Alex Ferguson með lang lengsta samfellda starfsferilinn hjá einu félagi en hann stýrði Man Utd frá 1986-2013. Næstur á eftir honum er Arsene Wenger (Arsenal 1996-2018) og þar á eftir David Moyes (Everton 2002-2013).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×