Enski boltinn

Lærisveinar Rooney enn í séns eftir að hafa frestað fögnuði Fulham

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vonin lifir.
Vonin lifir. vísir/Getty

Lærisveinar Wayne Rooney í Derby County eru óþreytandi og náðu fræknum sigri gegn toppliði Fulham í ensku B-deildinni í fótbolta í kvöld.

Með sigri hefði Fulham tryggt sér farseðil í ensku úrvalsdeildina þó enn eigi eftir að leika fimm leiki í deildinni. Á meðan er Derby að berjast fyrir lífi sínu og þarf á öllum stigum að halda enda byrjaði liðið mótið með 21 stig í mínus.

Fabio Carvalho, sem mun ganga í raðir Liverpool í sumar, kom Fulham í forystu eftir tuttugu mínútna leik.

Rooney náði að brýna sína menn í leikhléi og strax á 50.mínútu jafnaði hinn nítján ára gamli Luke Plange metin fyrir Derby.

Það voru svo heimamenn sem náðu inn sigurmarki en það kom á 73.mínútu þegar Tosin Adarabioyo, varnarmaður Fulham, setti boltann í eigið net. 

Lokatölur 2-1 fyrir Derby sem eru níu stigum frá öruggu sæti þegar fjórum umferðum er ólokið. Fulham hins vegar er nánast öruggt með annað af tveimur efstu sætum deildarinnar og mun að öllum líkindum leika í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×