Enski boltinn

Brighton stal sigrinum gegn Tottenham á lokamínútunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leandro Trossard tryggði gestunum sigurinn í dag.
Leandro Trossard tryggði gestunum sigurinn í dag. Clive Rose/Getty Images

Leandro Trossard reyndist hetja Brighton þegar hann tryggði liðinu 1-0 útisigur gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Heimamenn í Tottenham höfðu verið á mikilli siglingu fyrir leik dagsins og unnið sex af seinustu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Í þessum sjö leikjum hafði liðið skorað 25 mörk, en heimamenn voru ólíkir sjálfum sér í dag.

Fyrri hálfleikur var heldur bragðdaufur og heimamenn áttu ekki eitt einasta skot á markið. Gestirnir í Brighton voru ögn hættulegri, en ekkert var skorað áður en flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri og í raun lítið að frétta. Heimamenn í Tottenham voru meira með boltann, en áttu í stökustu vandræðum með að skapa sér marktækifæri.

Enn var markalaust þegar komið var að lokamínútu venjulegs leiktíma, en þá gerðist Christian romero, varnarmaður Tottenham, sekur um slæm mistök. Hann tapaði boltanum í öftustu línu og Leandro Trossard nýtti sér mistökin og setti boltann í netið fram hjá Hugo Lloris í markinu.

Ekki tókst heimamönnum að jafna metin í uppbótartíma og niðurstaðan varð því 1-0 útisigur Brighton. Tottenham situr enn í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 57 stig eftir 32 leiki, en þessi úrslit leggja stein í götu liðsins í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Brighton situr hins vegar í tíunda sæti með 40 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×