Enski boltinn

Arsenal missteig sig í baráttunni um Meistaradeildarsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jan Bednarek skoraði eina mark leiksins.
Jan Bednarek skoraði eina mark leiksins. Robin Jones/Getty Images

Arsenal sótti Southampton heim í ensku úrvalsdeildinni í dag í leik sem hefði getað komið gestunum skrefi nær sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Þrátt fyrir mikla yfirburði Arsenal voru það heimamenn í Southampton sem báru sigur úr býtum, 1-0.

Erkifjendur Arsenal í Tottenham töpuðu sínum leik fyrr í dag og því voru Skytturnar í dauðafæri til að jafna þá að stigum í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Gestirnir í Arsenal voru mun sterkari aðilinn í leiknum og það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar heimamenn í Southampton tóku forystuna á lokamínútum fyrri hálfleiks. Þar var á ferðinni Jan Bednarek eftir stoðsendingu frá Mohamed Elyounoussi og staðan því 1-0 í hálfleikshléinu, heimamönnum í vil.

Síðari hálfleikur bauð svo upp á meira af því sama. Leikurinn fór að mestu fram í kringum vítateig Southampton, en heimamenn vörðust vel.

Gestirnir bættu jafnt og þétt í sóknarþungann eftir því sem leið á leikinn, en inn vildi boltinn ekki og það voru því heimamenn sem fögnuðu 1-0 sigri.

Arsenal situr nú í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 54 stig eftir 31 leik, þremur stigum á eftir erkifjendum sínum í Tottenham sem sitja í fjórða sæti. Arsenal á þó leik til góða og liðin eiga enn eftir að mætast innbirgðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×