Enski boltinn

Arteta: Forster var ótrúlegur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mikel Arteta.
Mikel Arteta. vísir/Getty

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, trúði vart eigin augum þegar hann sá lið sitt tapa fyrir Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Arsenal var mun meira með boltann og átti fjölda marktækifæra í leiknum en það var Southampton sem gerði eina mark leiksins. Jan Bednarek skoraði það sem reyndist sigurmark leiksins seint í fyrri hálfleik.

„Það er erfitt að taka þessum úrslitum. Miðað við hvernig við stjórnuðum leiknum algjörlega er erfitt að skilja hvernig við töpuðum leiknum,“ sagði Arteta í leikslok áður en hann hrósaði markverði Southampton, hinum 34 ára gamla Fraser Forster, í hástert.

„Við hittum markið ekki nógu oft og hefðum getað gert betur á síðasta þriðjungi. Við fáum á okkur slakt mark úr föstu leikatriði en við hefðum átt að skora þrjú eða fjögur mörk.“

„Forster var ótrúlegur. Vörslurnar sem hann tók í dag unnu leikinn fyrir þá. Þessi leikur var einstefna,“ sagði Arteta.

Arsenal hefur verið í frjálsu falli að undanförnu en þetta var þriðja tap liðsins í röð. Í síðustu tveimur leikjum á undan tapaði liðið gegn Crystal Palace og Brighton.

„Það er mikið áhyggjuefni. Við erum að tapa leikjum á mismunandi hátt. Við spiluðum vel í dag en náðum ekki í úrslit. Við þurfum að gera bæði,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×