Enski boltinn

Richarlison tryggði Everton mikilvægt stig | Þriðji sigur Newcastle í röð

Atli Arason skrifar
Richarlison skoraði jöfnunarmark Everton á síðustu stundu.
Richarlison skoraði jöfnunarmark Everton á síðustu stundu. Getty Images)

Everton er nú fjórum stigum frá fallsvæðinu eftir jöfnunarmark Richarlison á síðustu andartökum leiksins í 1-1 jafntefli gegn Leicester. Almirón tryggði Newcastle stigin þrjú með stórkostlegri afgreiðslu.

Harvey Barnes kom gestunum frá Leicester yfir á 5. mínútu leiksins í gegnum smá klafs í teignum eftir fyrirgjöf James Maddison.

Liðin tvö skiptust á því að sækja á báða enda. Everton þurfti bráðnauðsynlega á sigri að halda til að forðast fallsvæðið en liðinu tókst að klúðra nokkrum góðum marktækifærum áður Richarlison nær að jafna metin í uppbótatíma síðari hálfleiks.

Stigið er þó mikilvægt fyrir Everton þar sem liðið er áfram í 17. sæti, því síðasta sem veitir áframhaldandi þátttöku í ensku úrvalsdeildinni, en nú fjórum stigum á undan Burnley. Bæði Everton og Burnley eiga sjö leiki eftir í deildinni. Leicester er í 9. sæti deildarinnar með 41 stig.

Glæsimark Miguel Almirón á 32. mínútu tryggði Newcastle 1-0 sigur á Crystal Palace. Bæði lið eru að berjast um miðja töflu en Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle er búinn að gera frábæra hluti með liðið eftir að hann tók við því þegar Newcastle virtist vera á hraðleið úr ensku úrvalsdeildinni.

Newcastle er nú í 11. sæti deildarinnar með 40 stig eftir 33 leiki á meðan Crystal Palace er í 14. sæti með 37 stig eftir 32 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×