Enski boltinn

Lampard: Það getur allt skeð

Atli Arason skrifar
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton.
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton. Getty Images

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton, var sáttur að liðið sitt sýndi baráttuvilja og náði að tryggja sér eitt stig þökk sé marki frá Richarlison á loka andartökum leiksins í 1-1 jafntefli gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Við erum ánægðir með stigið því það er erfitt að lenda marki undir gegn jafn góðu liði og Leicester er. Við vorum ekki sjálfum okkur líkir í fyrri hálfleik en mun betri í þeim síðari. Við klúðruðum mörgum mörgum dauðafærum, þetta var ekki okkar besta frammistaða en við eigum skilið að fá stig út úr þessu,“ sagði Lampard í viðtali við Sky Sports eftir leikinn.

„Við erum í harðri baráttu í töflunni og höfum verið það lengi. Pressan er á okkur en við þurfum að halda áfram að berjast.“

Everton er nú með fjögurra stiga forskot á Burnley og það stefnir allt í harða baráttu milli þessara tveggja liða um hvort þeirra gæti fallið niður um deild. Einhverjir segja að leikjaprógramið sem Burnley á eftir sé auðveldara en það sem Everton á. Lampard gefur þó lítið fyrir það.

„Það er ekki hægt að ráða eitthvað í leikjaprógramið. Fólk hefði sennilega ekki búist við því að við myndum ná í fjögur stig úr þessum síðustu tveimur leikjum gegn Manchester United og Leicester.“

„Næstu tveir leikir eru gegn Liverpool og Chelsea sem eru erfiðir mótherjar og svo myndu einhverjir segja að leikirnir eftir það eru auðveldari. Þetta er samt enska úrvalsdeildin, þar sem allir leikir eru erfiðir og það getur allt skeð. Það er ekki hægt að horfa í hvernig leikirnir líta út á pappír. Við þurfum bara að setja fókus á okkar leik og einbeita okkur að okkur, leik fyrir leik,“ sagði Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×