Enski boltinn

Undrandi og hafði búið sig undir að taka við United

Sindri Sverrisson skrifar
Mauricio Pochettino fer yfir málin með Kylian Mbappé.
Mauricio Pochettino fer yfir málin með Kylian Mbappé. Getty/Mehdi Taamallah

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri PSG, hafði gert ýmislegt til að undirbúa sig fyrir það að verða næsti stjóri Manchester United áður en hann frétti að búið væri að ráða Erik ten Hag í starfið.

Ten Hag var kynntur sem næsti stjóri United í gær en hann mun taka við liðinu í sumar og er samningur hans til næstu þriggja ára.

Þær fréttir voru áfall fyrir Pochettino samkvæmt grein The Athletic, þar sem hann var sannfærður um að hann myndi fá tilboð frá United eftir að hafa átt í sambandi við félagið allt frá árinu 2018, þegar hann hitti fyrst Ed Woodward.

United spurðist auk þess fyrir um stöðu Pochettino í nóvember þegar Ole Gunnar Solskjær var rekinn en þá fengust þau svör að eigendur PSG vildu ekki leysa hann undan samningi á miðju tímabili.

Tveimur mánuðum áður en Ten Hag var ráðinn var Pochettino búinn að vera safna upplýsingum um borgina Manchester, skipulag félagsins og karaktereinkenni leikmanna. Daily Mail sagði frá því í febrúar að leikmenn United væru almennt hrifnari af því að fá Pochettino inn í stað Ten Hag.

Ten Hag heillaði hins vegar forráðamenn United meira í viðtölum og landaði starfinu. Pochettino fékk enga viðvörun frá félaginu um það, samkvæmt The Athletic. Til stóð að hringja í Pochettino og láta hann vita áður en nokkuð yrði tilkynnt og niðurstaðan er sögð vandræðaleg fyrir Pochettino þar sem hann hafi verið „sigurviss“ í baráttunni við Ten Hag. Gert er ráð fyrir því að PSG muni losa sig við hann í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×