Ferna frá Jesus og City komið með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar

Gabriel Jesus fagnar fjórða markinu sínu í leiknum
Gabriel Jesus fagnar fjórða markinu sínu í leiknum Getty Images

Watford var enginn fyrirstaða fyrir Manchester City en Englandsmeistararnir unnu sannfærandi 5-1 sigur til að setja pressuna aftur yfir á Liverpool.

Gabriel Jesus skoraði fjögur af fimm mörkum City í dag en fyrsta markið kom strax á 4. mínútu leiksins eftir undirbúning Zinchenko. Jesus var búinn að tvöfalda forystu City tæpum 20 mínútum síðar með kollspyrnu eftir fyrirgjöf De Bruyne.

Eftir mikla yfirburði heimamanna fékk Hassane Kamara, leikmaður Watford, alla stuðningsmenn liðsins til að óttast um stund þegar hann skoraði úr eina skoti Watford á markramman allan fyrri hálfleikinn.

Rodri róaði þó allan þann vafa í stuðningsmönnum City þegar hann skoraði með þrumuskoti fyrir utan vítateig og það eftir undirbúning Jesus, sem kom að öllum fimm mörkum City í þessum leik. Staðan var 3-1 í hálfleik.

Það voru ekki nema örfáar sekúndur liðnar af síðari hálfleik þegar Jesus vinnur boltann af varnarmanni Watford og ætlar fram hjá Foster í markinu en Foster tekur Jesus niður og vítaspyrna dæmd. Jesus fer sjálfur á punktinn og fullkomnar þrennuna með því að skora úr vítaspyrnunni.

Fjórum mínútum síðar, eða á 53. mínútu skorar Jesus fjórða mark sitt eftir samspil við Kevin De Bruyne á horni vítateigsins. Boltinn berst til Jesus inn í teig sem skorar af öryggi.

Meira var ekki skorað og City fer því í 80 stig á toppi deildarinnar eftir 33 leiki. Liverpool er í öðru sæti með 76 stig en Liverpool er búið að leika einum leik minna en City, Liverpool spilar við Everton á morgun. Watford er í öllu verri málum og fátt virðist geta komið í veg fyrir að liðið falli úr úrvalsdeildinni. Watford er í 19. sæti deildarinnar með 22 stig, sjö stigum frá öruggu sæti þegar liðið á fimm leiki eftir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira