Enski boltinn

Van Basten ráðleggur Ten Hag að treysta á Ronaldo og hlusta ekki á fjölmiðlana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur skorað mikið fyrir Manchester United liðið að undanförnu og er langmarkahæsti leikmaður liðsins á leiktíðinni.
Cristiano Ronaldo hefur skorað mikið fyrir Manchester United liðið að undanförnu og er langmarkahæsti leikmaður liðsins á leiktíðinni. AP/Jon Super

Erik ten Hag tekur við liði Manchester United í sumar og það eru margir forvitnir um hvað hann gerir við Cristiano Ronaldo. Landi Ten Hag og goðsögn í hollensku fótboltasögunni ráðleggur honum að byggja liðið í kringum portúgalska framherjann.

Ronaldo skoraði á móti Arsenal um helgina eftir að hafa misst af 4-0 tapleiknum á móti Liverpool. Hann hefur skorað þrennu í síðustu tveimur heimaleikjum á móti Norwich City og Tottenham.

Marco van Basten er einn besti framherji allra tíma en þurfti að leggja skóna á hilluna aðeins 28 ára gamall vegna meiðsla.

„Ef Ronaldo spilar áfram eins og hann gerði í síðustu viku (á móti Norwich) og skorar tvö eða þrjú mörk í leik reglulega þá er engin ástæða til að taka hann úr liðinu,“ sagði Marco van Basten í The Rondo Show.

„Ronaldo er leikmaður sem gerir hlutina oft fyrir sjálfan sig en á meðan hann er að skila mörkum þá verður hann að eiga sæti í liðinu,“ sagði Van Basten.

„Ten Hag verður samt að átta sig á því að hann getur ekki beðið um það sama líkamlega af Cristiano Ronaldo og af átján ára leikmanni,“ sagði Van Basten.

„Auðvitað verður Ronaldo að leggja mikið á sig og ég er viss um að hann gerir það því ég sé alveg Ten Hag hafa góð áhrif á hann. Hann mun leyfa honum að spila þar sem hann vill,“ sagði Van Basten.

„Ég er tilbúinn að gefa Erik eitt gott ráð. Ekki hlusta á fjölmiðlana þegar hann byrjar þarna,“ sagði Van Basten.

„Hann mun vera með fullkomna einbeitingu á sitt starf, sína vinnu á æfingavellinum og á liðið sjálft. Þegar hann gerir það þá er ég viss um að hann getur breytt öllu hjá United,“ sagði Marco van Basten

Cristiano Ronaldo hefur skorað 22 mörk á tímabilinu þar af sextán mörk í 27 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Hann hélt upp á 37 ára afmælið sitt í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×