Enski boltinn

Everton fengið helminginn af öllum gulum spjöldum fyrir leikaraskap í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuart Attwell spjaldar Anthony Gordon fyrir leikaraskap í grannaslag Liverpool og Everton.
Stuart Attwell spjaldar Anthony Gordon fyrir leikaraskap í grannaslag Liverpool og Everton. getty/Rich Linley

Leikmenn Everton hafa fengið helminginn af öllum gulum spjöldum sem hafa verið gefin fyrir leikaraskap í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Anthony Gordon fékk gult spjald fyrir að falla of auðveldlega í vítateig Liverpool í Bítlaborgarslagnum á Anfield á sunnudaginn.

Hann varð þar með sjötti leikmaður Everton til að fá gult spjald fyrir leikaraskap í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Andros Townsend og Demarai Gray fengu báðir báðir gult spjald fyrir að láta sig detta í fyrri deildarleiknum gegn Liverpool á tímabilinu. Richarlison, Allan og Lewis Dobbin hafa einnig verið áminntir fyrir leikaraskap í vetur.

Alls hafa tólf leikmenn fengið gult spjald fyrir leikaraskap í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og helmingur þeirra kemur úr röðum Everton. Auk áðurnefndra leikmanna hafa Bukayo Saka (Arsenal), Rayan Ait-Nouri (Wolves), Moussa Djenepo (Southampton), Michail Antonio (West Ham), Ivan Toney (Brentford) og Jean-Phillipe Mateta (Crystal Palace) verið færðir til bókar fyrir leikaraskap.

Gordon féll tvívegis í vítateig Liverpool í leiknum á sunnudaginn. Hann fékk gult spjald fyrir að falla í baráttu við Naby Keïta og seinna í leiknum féll hann við eftir baráttu við Joël Matip. Gordon hafði meira til sín máls í það skiptið en Stuart Attwell dæmdi ekkert.

Everton er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 29 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. Strákarnir hans Franks Lampard eiga leik til góða á Burnley sem er í 17. sætinu. Næsti leikur Everton er gegn Chelsea á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×