Enski boltinn

Eins gott að haga sér undir stjórn Erik ten Hag eins og þetta dæmi sýnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag er harður húsbóndi og það verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir hjá Manchester United.
Erik ten Hag er harður húsbóndi og það verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir hjá Manchester United. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Hollendingurinn Erik ten Hag tekur við agalitlu liði Manchester United í sumar og bíður stórt verkefni að koma félaginu aftur í hóp bestu liða enska boltans.

Manchester United borgar hæstu launin í ensku úrvalsdeildinni en það er ekki að sjá á frammistöðu liðsins inn á vellinum.

Það hafa verið sögur um smákónga, stjörnustæla og litla samheldni innan leikmannahóps á Old Trafford og það er alveg á hreinu að þar þarf hollenski stjórinn að taka til.

ESPN gróf upp myndband með Erik ten Hag og leikmanninum Noa Lang í bikarleik með Ajax. Það má búast við því að stuðningsmenn United sjái þar von að þarna sé kominn stjóri sem þori að taka á stjörnustælum og agavandamálum.

Ten Hag vildi að leikmaðurinn hlýddi sér og varð mjög reiður þegar hann svaraði honum. Þetta má sjá hér fyrir neðan.

„Noa, þú verður að hlaupa alla leið,“ byrjaði Erik ten Hag en Noa svaraði honum og þá fauk í stjórann.

„Þú verður að halda kjafti. Þú verður að hlusta og þú verður að gera þetta,“ sagði Ten Hag.

„Hættu þessu strax. Þetta er okkar leikur en ekki bara þinn leikur,“ sagði Ten Hag.

Þessi þá 21 árs gamli leikmaður fékk að heyra það hjá stjóranum en stælarnir þýddu líka eitt.

Noa Lang var nefnilega sendur í burtu á láni aðeins mánuði síðar. Hann fór til Club Brugge á láni í október og var síðan aftur lánaður til belgíska félagsins um sumarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×