Enski boltinn

Skipar leikmönnum að vera í klukkutíma fjarlægð frá æfingasvæðinu en vill sjálfur ekki flytja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki hefur gengið sem skyldi síðan Steve Bruce tók við enska B-deildarliðinu West Brom.
Ekki hefur gengið sem skyldi síðan Steve Bruce tók við enska B-deildarliðinu West Brom. getty/Malcolm Couzens

Steve Bruce, knattspyrnustjóri West Brom, krefst þess að leikmenn liðsins eigi heima í klukkutíma fjarlægð frá æfingasvæði félagsins. Hann er aftur á móti ekki tilbúinn að flytja sjálfur.

Bruce tók við West Brom í byrjun febrúar. Þá var liðið í 6. sæti ensku B-deildarinnar. Illa hefur gengið að undanförnu og West Brom er núna í 13. sæti deildarinnar.

Eitt af því sem Bruce telur að geti bætt árangur West Brom er að leikmenn liðsins eigi heima skammt frá æfingasvæðinu.

„Ég sagði þeim að þeir yrðu allir að vera í klukkutíma fjarlægð frá æfingasvæðinu. Við erum ekki á nógu góðum stað í deildinni. Ég vil ráðast í endurskipulagningu á hópnum fyrir næsta tímabil. Og leikmennirnir sem eru hér, og koma hingað, verða að skuldbinda sig,“ sagði Bruce.

„Við erum með of marga leikmenn sem þurfa að ferðast og það getur ekki verið gott fyrir þig sem atvinnumann. Ég tjáði þeim það og þeir voru jákvæðir gagnvart því. Ég held þeir skilji mig.“

Bruce á sjálfur heima í Cheshire sem er í eins og hálfs klukkutíma fjarlægð frá West Bromwich. Hann hefur hins vegar ekki hug á að flytja.

„Fólk mun spyrja mig hvort ég muni flytja. En það vinnur ekki með okkur. Við erum venjulega reknir,“ sagði Bruce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×