Enski boltinn

Meiðslalisti United lengist fyrir leikinn við Chelsea

Sindri Sverrisson skrifar
Fyrirliðinn Harry Maguire verður ekki með Manchester United annað kvöld.
Fyrirliðinn Harry Maguire verður ekki með Manchester United annað kvöld. Getty/Charlotte Wilson

Harry Maguire og Jadon Sancho missa báðir af leik Manchester United gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta annað kvöld.

Maguire er meiddur í hné og Sancho er veikur. Auk þeirra eru Paul Pogba, Fred, Edinson Cavani og Luke Shaw frá keppni vegna meiðsla.

Þetta staðfesti Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri United, á blaðamannafundi í dag og viðurkenndi að hann gæti þurft að láta unga og óreynda leikmenn spila gegn Evrópumeisturunum:

„Það er mögulegt. Það vantar nokkuð marga leikmenn og enn eru 1-2 spurningmerki varðandi morgundaginn, til að mynda varðandi það hvort Aaron Wan-Bissaka geti spilað,“ sagði Rangnick.

„Ég er þegar búinn að leyfa Hannibal að spila gegn Liverpool svo það er mögulegt [að ungir leikmenn fái að spila] en við verðum að vera sanngjarnir gagnvart þeim leikmönnum. Það þarf að velja réttu augnablikin og þeir verða að fá tækifæri til að standa sig vel í stað þess að þeim sé bara ýtt út í leikinn. Það þarf að velja rétta tímann,“ sagði Rangnick.

United á fjóra leiki eftir í deildinni en möguleikinn á sæti í Meistaradeild Evrópu er svo gott sem úr sögunni eftir tapið gegn Arsenal í síðasta leik. United er í 6. sæti með 54 stig, sex stigum á eftir Arsenal sem er í 4. sæti og á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×