Enski boltinn

Stuðningsmenn Liverpool geta þakkað Ullu fyrir frábæru fréttirnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp með eiginkonu sinni Ullu en hún var tilbúin að búa áfram í Liverpool næstu árin.
Jürgen Klopp með eiginkonu sinni Ullu en hún var tilbúin að búa áfram í Liverpool næstu árin. Getty/Stuart Franklin

Jürgen Klopp framlengdi samning sinn í gærkvöldi og verður því knattspyrnustjóri Liverpool til ársins 2026.

Þetta eru frábærar fréttir fyrir stuðningsmenn Liverpool enda hefur þýski stjórinn gerbreytt félaginu á þeim rúmu sex árum sem hann hefur setið í stjórastólnum á Anfield. Liðið hefur unnið ensku úrvalsdeildina og Meistaradeildina og getur enn unnið fernuna á þessu tímabili.

Fyrri samningur Klopp var til ársins 2024 og hann hafði hingað til alltaf talað eins og myndi yfirgefa félagið þá. Í viðtali við sjónvarpsstöð Liverpool þá kom í ljós að Liverpool-fólk getur þakkað Ullu eiginkonu hans fyrir nýjustu vendingarnar.

Klopp giftist Ullu Sandrock árið 2005 og hún virðist kunna mjög vel við sig í Liverpool ef marka má viðtalið við Jürgen.

„Mikilvægasti samningurinn sem ég hef skrifað undir í mínu lífi er sá sem ég gerði við Ullu. Það var hjá henni sem þetta byrjaði allt saman,“ sagði Jürgen Klopp í viðtali við Liverpool TV.

„Við sátum við eldhúsborðið og Ulla sagði við mig: Ég get ekki séð okkur fara héðan árið 2024,“ sagði Klopp og bætti við: „Ég sagði: Hvað! Þannig byrjaði þetta allt saman og ég sagði að við yrðum að hugsa aðeins betur um þetta,“ sagði Klopp.

„Þegar ég hugsaði mig betur um þá varð ljóst að ég yrði að eiga eitt mikilvægt samtal í viðbót við Pep Lijnders af því að hann er líklega aðalástæðan fyrir þessu. Okkar tenging nær út fyrir fótboltann,“ sagði Klopp.

„Þegar hann sagði: Já, ég er klár. Þá varð það ljóst að við vorum opnir fyrir alls konar viðræðum og þess vegna sitjum við hér í dag,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×