Enski boltinn

Segir mjög góðar líkur á því að Eriksen verði áfram hjá Brentford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen þakkar stuðningsmönnum Brentford fyrir eftir sigurleik á Eest Ham í vetur.
Christian Eriksen þakkar stuðningsmönnum Brentford fyrir eftir sigurleik á Eest Ham í vetur. Getty/Warren Little

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford er bjartsýnn á það að hann geti haldið landa sínum Christian Eriksen hjá félaginu.

Frank tjáði sig um framhaldið hjá danska landsliðsmiðjumanninum eftir tapleikinn á móti Manchester United á Old Trafford í gærkvöldi.

Hinn þrítugi Eriksen skrifaði undir sex mánaða samning við félagið í janúar en hann var þá að koma til baka eftir hjartastopp í leik með danska landsliðinu á EM sumarið 2021.

Eriksen hefur átt frábæra innkomu í liðið og átti mikinn þátt í því að Brentford sagði skilið við fallbaráttuna. Í rauninni var tapið á Old Trafford í gær það fyrsta síðan að Eriksen fór að spila með Brentford.

„Ég er alltaf jákvæður,“ sagði Thomas Frank aðspurður um möguleika á því að halda Christian Eriksen.

Margir hafa búist við því að Eriksen færi í stærra félag nú þegar hann hefur sýnt það og sannað að hann getur enn spilað fótbolta á hæsta stigi þrátt fyrir hjartastoppið. Hann hefur verið orðaður við Tottenham, Newcastle og Manchester United.

„Ég hef alltaf trú á því að við eigum mjög góða möguleika á að halda honum. Ég veit að hann er ánægður hérna og hann nýtur þess að spila fótbolta. Þetta er ákvörðun sem verður tekin eftir að tímabilinu lýkur,“ sagði Frank.

Eriksen spilar með bjargráð sem er ætlað að hjálpa að koma hjartanu aftur af stað ef það stoppar aftur.

Allt hefur gengið eins og í sögu síðan hann byrjaði aftur og liðið hefur blómstrað með hann inn á miðjunni. Brentford hefur unnið sex af átta leikjum sínum eða alla nema tapið á móti Manchester United í gær og markalaust jafntefli á móti Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×