Enski boltinn

Stuðningsmenn Man United strax komnir með sniðugan söng um Ten Hag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag er að hætta með lið Ajax frá Amsterdam til að taka við Manchester United.
Erik ten Hag er að hætta með lið Ajax frá Amsterdam til að taka við Manchester United. EPA-EFE/KOEN VAN WEEL

Það væri jafnvel hægt að gefa stuðningsmönnum Manchester United tíu í einkunn fyrir nýjan stuðningsmannasöng þeirra um hollenska knattspyrnustjórann Erik ten Hag.

Ten Hag, sem er að hætta með lið Ajax, tekur við Manchester United liðinu af Ralf Rangnick í sumar.

Gengi United hefur ekki verið gott undir stjórn Rangnick en liðið vann þó 3-0 sigur á Brentford í gær í síðasta heimaleiknum í gærkvöldi.

Það er mikil spenna meðal flestra stuðningsmanna félagsins fyrir komandi sumri og um leið fyrsta tímabilinu undir stjórn Hollendingsins. Margir leikmenn eru á förum og það er von á nýjum spennandi leikmönnum til liðsins.

Ten Hag hefur gert frábæra hluti hjá Ajax og hefur náð þar að byggja upp tvö mjög skemmtileg fótboltalið eftir að félagið seldi stjörnurnar úr fyrra liðinu hans sem fór alla leið í undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Stuðningsmennirnir hjá United láta sér dreyma um betri tíma undir stjórn nýja stjórans og nokkrir sniðugir eru þegar búnir að semja nýjan söng um Erik ten Hag.

Þeir nýta sér það að nafn hans er ten Hag sem er hægt að skilja á ensku sem tíu Hag.

Nýi söngurinn snýst því um að telja upp í tíu Hag með því að byrja á einn Hag (one Hag), tveir Hag (two Hag), þrír Hag (three Hag) og svo framvegis þegar til að þeir ná að telja upp í tíu Hag (ten Hag).

Það má sjá þá syngja þennan skemmtilega söng í myndbandinu hér fyrir neðan og maður sér alveg allan Old Trafford taka vel undir þegar þessi byrjar gangi liðinu vel á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×