Enski boltinn

De Bru­yne: City þarf að vinna Meistara­deildina til að breyta umræðunni um liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne fagnar hér marki sínu fyrir Manchester City á móti Real Madrid í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeildinni.
Kevin De Bruyne fagnar hér marki sínu fyrir Manchester City á móti Real Madrid í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeildinni. Getty/David Ramos

Kevin De Bruyne, lykilmaður Manchester City, fer ekkert í felur með það hvað það skiptir félagið miklu máli að vinna loksins Meistaradeildina eftir áralanga bið.

Manchester City hefur unnið ensku deildina fimm sinnum á síðustu tíu árum en hefur aldrei náð að vinna Meistaradeild Evrópu.

City tapaði í úrslitaleiknum í fyrra og getur komist þangað aftur í kvöld þegar seinni undanúrslitaleikurinn á móti Real Madrid fer fram á Spáni. Manchester City vann fyrri leikinn 4-3.

„Ég held að það myndi breyta sjónarhorni þeirra sem standa fyrir utan félagið,“ sagði Kevin De Bruyne aðspurður um þá þá gagnrýnendur sem hafa talað niður City vegna þess að Meistaradeildarbikarinn hefur aldrei komist í verðlaunasafnið á Etihad.

Manchester City hefur unnið alla titla heima fyrir margoft á síðustu árum en bikarinn með stóru eyrun hefur runnið þeim úr greipum þrátt fyrir mörg lofandi tímabil á undanförnum árum.

„Sem leikmaður þá viltu vinna titla og við viljum vinna þennan. Sú staðreynd að við höfum verið að keppast við að vinna þennan bikar í mörg ár og höfum oft komist langt sýnir það að við höfum verið að gera vel í þessari keppni,“ sagði De Bruyne.

„Þetta er samt bikarkeppni og gæðin eru mikil í þessari keppni. Það er því mjög erfitt að vinna hana en á endanum ættu menn að horfa til baka á frammistöðu okkar og á frammistöðu mína í þessari keppni undanfarin sjö ár. Þar sjá menn að við höfum gert góða hluti. Við höfum ekki unnið og með því að vinna þá myndi það breyta örlítið hvernig er talað um þennan tíma hjá okkur,“ sagði De Bruyne.

Seinni undanúrslitaleikur Real Madrid og Manchester City á Santiago Bernabeu verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 í kvöld. Upphitun hefst klukkan 18.15 en útsending frá leiknum klukkan 18.50. Meistaradeildarmörkin gera síðan upp leikinn eftir lokaflautið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×