Enski boltinn

Wenger segir að Emery hafi fengið ósanngjarna meðferð hjá Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsene Wenger hefur mikið álit á Unai Emery.
Arsene Wenger hefur mikið álit á Unai Emery. getty/David Price

Arsene Wenger segir að eftirmaður sinn hjá Arsenal, Unai Emery, hafi fengið ósanngjarna meðferð hjá félaginu.

Emery tók við Arsenal sumarið 2018 þegar Wenger steig frá borði eftir að hafa stýrt félaginu í 22 ár. Emery entist ekki lengi hjá Arsenal og var rekinn eftir átján mánuði í starfi. Wenger hálf vorkennir Spánverjanum að hafa ekki fengið meiri tíma hjá Arsenal.

„Hann fékk klárlega ósanngjarna meðferð því þeir gáfu honum ekki mikinn tíma,“ sagði Wenger er hann var spurður út í eftirmann sinn þegar hann var sérfræðingur beIn Sport um leik Villarreal og Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fyrradag.

Emery tók við Villarreal eftir að hann var rekinn frá Arsenal og hefur gert frábæra hluti með liðið. Undir hans stjórn vann það Evrópudeildina í fyrra og komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar í ár.

„Mér finnst Unai Emery vera góður þjálfari og hann hefur hvað eftir annað sýnt það á Spáni,“ sagði Wenger.

Villarreal tapaði 2-3 fyrir Liverpool í fyrradag eftir að hafa verið 2-0 yfir í hálfleik. Liverpool vann einvígið, 5-2 samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×