Erlent

Að minnsta kosti 25 látnir eftir sprengingu við lúxushótel í Havana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Enn er leitað að fólki í rústunum.
Enn er leitað að fólki í rústunum. Getty/Anadolu Agency/Yander Zamora

Að minnsta kosti 25 eru látnir og fleiri en 60 hafa verið fluttir á sjúkrahús eftir að sprenging varð við eitt af lúxushótelum Havana á Kúbu.

Talið er að blossi eða eldur hafi komist að eldsneyti sem var um borð í tankbíl sem stóð fyrir utan hið fimm stjörnu Saratoga Hotel í Gamla-Havana. Bifreiðin virðist við það hafa sprungið í loft upp og eyðilagt nokkrar hæðir hótelsins.

Til stóð að opna hótelið á ný eftir fjóra daga en því var lokað í kórónuveirufaraldrinum.

Unnið er að því að leita að fólki sem kann að vera fast undir rústum byggingarinnar.

Yfirvöld segja þungaða konu og barn meðal látnu.

Yazira de la Caridad, sem býr skammt frá hótelinu, sagði í samtali við CBS News að hún hefði talið sprenginguna vera jarðskjálfta. Vitni sögðu hafa séð svartan reyk liðast til himins og rykský liggja yfir í kjölfar sprengingarinnar.

Sem betur fer sakaði engan í skóla sem stendur á bak við hótelið.

Samkvæmt BBC hafa Beyonce, Madonna og Mick Jagger öll gist á hótelinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×