Enski boltinn

Klopp: Liverpool getur enn orðið enskur meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp fagnar hér sigrinum á Villarreal sem kom Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Jürgen Klopp fagnar hér sigrinum á Villarreal sem kom Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Getty/David S. Bustamante

Liverpool er þremur stigum á eftir Manchester City eftir leiki helgarinnar og búið að missa forskot sitt í markatölu. Liverpool tapaði stigum á móti Tottenham á sama tíma og City rúllaði upp Newcastle.

Knattspyrnustjóri Liverpool, Jürgen Klopp, er ekki búinn að gefa upp vonina þrátt fyrir vonbrigði helgarinnar en fram undan er leikur á móti Aston Villa í kvöld.

Klopp var spurður um það á blaðamannafundi hvort að hann hafi talað um það við leikmenn sína að möguleikinn á enska meistaratitlinum væri nú orðinn að engu eftir síðustu úrslit. ESPN segir frá.

„Ég er nú ekki viss að ég hafi sagt það því það er augljóst. Það liggur í augum uppi að titilbaráttan er ekki búin sama hvað gerðist,“ sagði Jürgen Klopp.

„Við eigum þrjá leiki eftir og ég hef bara áhyggjur af því hvernig við förum að því að vinna þessa þrjá leiki. Ég hef ekkert með það að segja hvort City vinni sína þrjá leiki eða ekki. Við hættum aldrei að trúa, þannig virkum við,“ sagði Klopp.

„Sem manneskjur þá er það virkilega svalt að við getum ákveðið það sjálfir hvernig við horfum á þetta. Það eru staðreyndir en við megum hunsa þær. Ég er að reyna að hjálpa strákunum að sjá stöðuna eins og ég sjálfur,“ sagði Klopp.

Manchester City spilar við Wolves á útivelli annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×