Enski boltinn

Everton greip ekki gæsina | Botnliðið tapaði með þremur gegn Leicester

Atli Arason skrifar
Demarai Gray hefði getað tryggt Everton stigin þrjú í kvöld en tókst ekki að nýta færi sitt. Stigið gæti þó reynst liðinu mikilvægt. 
Demarai Gray hefði getað tryggt Everton stigin þrjú í kvöld en tókst ekki að nýta færi sitt. Stigið gæti þó reynst liðinu mikilvægt.  Getty Images

Watford batt enda á taphrinu sína á heimavelli með markalausu jafntefli gegn Everton á meðan Leicester átti ekki í vandræðum með botnlið Norwich.

Everton mistókst að fjarlægast fallsvæðið almennilega með 0-0 jafntefli á útivelli gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Það var nóg um auð sæti á Vicarage Road, heimavelli Watford, í leik liðsins gegn Everton. Watford er nú þegar fallið úr úrvalsdeildinni en liðið hafði tapað síðustu 11 leikjum í röð á heimavelli.

Leikur liðanna var frekar bragðdaufur og fátt um fína drætti. Watford virtist líklegra til að skora í upphafi leiks en Pickford sá við öllu sem heimamenn reyndu. Besta færi leiksins féll þó fyrir Demarai Gray, leikmann Everton, eftir klukkutíma leik. Gray tókst ekki að nýta marktækifæri sitt af stuttu færi.

0-0 urðu lokatölur sem bindur enda á 11 leikja taphrinu Watford á heimavelli.

Watford er áfram í 19. sæti með 23 stig en Everton fer upp í 36 stig í 16. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti.

 Jamie Vardy skoraði tvö mörk í kvöld og er nú kominn með 12 mörk í deildinni á þessu tímabili.Getty Images

Leicester vann öruggan 3-0 sigur á hinu liðinu sem er nú þegar fallið, botnliði Norwich.

Leikurinn skipti ekki miklu máli fyrir bæði lið þar sem þau hafa í raun engu að keppa. Leicester á ekki möguleika á Evrópusæti og Norwich er fallið úr Úrvalsdeildinni.

Fyrri hálfleikurinn var markalaus en í þeim síðari gerir Jamie Vardy tvö mörk á átta mínútna kafla, á 54. og 62. mínútu. James Maddison gerir svo þriðja mark Leicester á 70. mínútu.

Leicester fer með sigrinum upp í 10. sæti deildarinnar með 45 stig en Norwich er eftir sem áður á botni deildarinnar með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×