Enski boltinn

City afhjúpar styttu af Agüero í tilefni af tíu ára afmæli marksins fræga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Styttan afhjúpuð.
Styttan afhjúpuð. Tom Flathers/Manchester City FC via Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City afhjúpuðu í dag styttu af Sergio Agüero fyrir utan Etihad völlinn í tilefni af því að í dag eru tíu ár síðan leikmaðurinn tryggði liðinu Englandsmeistaratitilinn í uppbótartíma í lokaumferð tímabilsins.

Þetta var fyrsti Englandsmeistaratitill félagsins síðan árið 1968 og það má með sanni segja að dramatískari verða sigrarnir líklega ekki.

Liðið þurfti sigur gegn QPR í lokaumferðinni til að hafa betur gegn nágrönnum sínum í Manchester United í baráttunni um titilinn. Heimamenn í City voru 2-1 undir þegar venjulegum leiktíma lauk, en Edin Dzeko jafnaði metin á annarri mínútu uppbótartíma áður en Sergi Agüero skoraði sigurmarkið eftirminnilega tveimur mínútum síðar.

Markið tryggði liðinu Englandsmeistaratitilinn, en aðeins markatalan skildi Manchester liðin að þetta tímabilið.

„Þetta var besta stund lífs míns,“ sagði Agüero þegar styttan var afhjúpuð.

„Þetta augnablik breytti lífi mínu. Það breytti klúbbnum og öllu. Þetta augnablik verður alltaf nálægt hjarta mínu.“

„Við vitum ekki hvað hefði gerst ef við hefðum ekki unnið titilinn þetta ár. Þetta breytti öllu af því að á næstu árum þá fórum við að vinna fleiri titla,“ sagði Argentínumaðurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×